„Ég fékk hugmyndina að þessari bók fyrir ári síðan, vorið 2021, skömmu eftir að ég byrjaði sjálfur að stunda utanvegahlaup af krafti,“ segir Ólafur Heiðar Helgason, en hann sendi nú á vordögum frá sér bókina Hlaupahringir á Íslandi, en þar er að finna nákvæmar leiðbeiningar og lýsingar á 36 hlaupahringjum víðs vegar um landið. Ólafur hefur mikla reynslu af útivist og hlaupum sem og gönguferðum um landið okkar.
„Utanvegahlaupin hafa sannarlega sprungið út í vinsældum á undanförnum árum en mér fannst vera tækifæri til að bæta þekkingu á hvaða leiðir er hægt að fara og með bókinni vil ég þannig bæta nýrri vídd í þessa frábæru íþrótt. Ég tók síðasta sumar í þetta verkefni, að vinna að bókinni, ég hljóp fyrstu leiðina í maí og þá síðustu í október. Þetta var ansi stíft prógramm, ég fór í túra út á land þar sem ég hljóp dag eftir dag. Ég held að lengsta ferðin hafi verið á Austurlandi þar sem ég var í fimm daga og hljóp nokkrar mjög fallegar leiðir í yndislegu veðri.“
Þegar kíkt er á landakortið í upphafi bókar má glögglega sjá að þó svo að margir hlaupahringir séu staðsettir á suðvesturhorninu, eru hringir út um allt land, líka á útnárum.
„Ég vildi hafa hlaupaleiðirnar á breiðum grundvelli, bæði með tilliti til staðsetningar og erfiðleikastigs. Þarna eru leiðir sem henta flestum getustigum, stysta leiðin er fjórir kílómetrar en sú lengsta er 26 kílómetrar. Nokkrar leiðir í bókinni eru úr keppnishlaupum en ég fann líka nýja staði sem hafa ekki fengið mikla athygli áður, til dæmis hlaupahringurinn í Keflavík við Rauðasand, sem er rétt hjá Látrabjargi alveg vestast á Vestfjörðum. Þetta er eyðivík en á þessari hlaupaleið er farið um forna þjóðleið ofan í þessa vík og þetta er yndsileg leið, mikil náttúruperla.“
Þegar Ólafur er spurður að því hvað utanvegahlaup hafi umfram götuhlaup, segist hann halda að það sem fólk sækist eftir séu nokkrir þættir.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag, 16. maí.