Náttúruverndarsamtökin Náttúrugrið telja ekki unnt að rökstyðja aflaukningu þriggja virkjana Landsvirkjunar á Þjórsár-Tungnaársvæðinu, sem gert er ráð fyrir í stjórnarfrumvarpi að verði heimiluð án þess að fara í gegn um rammaáætlun. Telja félagasamtökin að sú viðbót við orkuframleiðslu sem fengist sé allt of lítil til að standa undir fjárfestingunni. Þess vegna telja þau að það hangi á spýtunni hjá Landsvirkjun að samhliða yrði farið í Kjalölduveitu úr Þjórsá.
Umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis er með til umfjöllunar frumvarp umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra um að breyta gildissviði laga um rammaáætlun þannig að hún taki ekki til stækkunar á þeim virkjunum sem þegar eru í rekstri, svo framarlega sem stækkunin feli ekki í sér rask á óröskuðu svæði. Með því verði hægt að hraða framkvæmdum til að auka afkastagetu þeirra virkjana sem þegar eru í rekstri. Meginrökin eru þau að þetta sé liður í því að Ísland nái markmiðum sínum í loftslagsmálum.
Áður hefur komið fram að Landsvirkjun hefur áhuga á að ráðast í aflaukningu í þremur vatnsaflsvirkjunum sínum á Þjórsár-Tungnaársvæðinu og HS orka að auka afl jarðvarmavirkjunar sinnar í Svartsengi. Aukið afl virkjana Landsvirkjunar er ætlað til að nýta leysingavatn sem í núverandi ástandi fer ónýtt fram hjá vélum stöðvanna þegar mikið rennsli er í ánum og miðlunarlón full. Hins vegar mun orkuvinnslugeta virkjananna aukast lítið. Með því að auka uppsett afl þeirra um 210 megavött myndi samanlögð orkuvinnslugeta aðeins aukast um um 25-42 gígavattstundir á ári.
Í samráði á fyrri stigum málsins komu fáar athugasemdir og umhverfisverndarsamtök lögðust ekki gegn áformunum. Við annan tón kveður í umsögn Náttúrugriða sem umhverfis- og samgöngunefnd óskaði eftir. Í umsögninni, sem Snæbjörn og Sverrir Guðmundssynir hafa unnið, kemur fram það álit að stækkanir virkjana Landsvirkjunar geti ekki staðið sem sjálfstæðar framkvæmdir í skilningi laga um verndar- og orkunýtingaráætlun og fyrirhugaðra breytinga á þeim, þar sem fjárfestingin geti ekki skilað arði án þess að ganga á óraskað svæði með tengdum framkvæmdum. Þær séu að þessu leyti í algerri andstöðu við efni og yfirlýst markmið frumvarpsins og þá stefnu sem kemur fram í stjórnarsáttmála um að nýta betur virkjanir.
Vitnað er til útreikninga Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands þar sem framtíðartekjur af stækkun þriggja virkjana Landsvirkjunar eru núvirtar á 2,5 milljarða og er þá miðað við hámarks orkuframleiðslu og að orkan verði öll seld sem tryggt rafmagn. Kostnaðurinn er sagður trúnaðarmál en Náttúrugrið áætla hann, miðað við aðrar framkvæmdir, 15-20 milljarða eða 6-8 sinnum meiri en núvirtar heildartekjur. Því sé enginn fjárhagslegur grundvöllur fyrir stækkunum sem sjálfstæðum virkjanakostum.
Náttúrugrið benda á að Landsvirkjun hafi lengi haft áform um að koma upp Norðlingaölduveitu með lóni í Þjórsárverum til þess að veita vatni í Þórisvatn, sem er aðalmiðlunarlón virkjana Landsvirkjunar. Þegar það var slegið út af borðinu hafi fyrirtækið komið með nýja útfærslu, Kjalölduveitu, sem sé sambærileg að öllu leyti nema hvað stíflað yrði neðar í farvegi Þjórsár.
Myndi framkvæmdin hafa mikið rask í för með sér og fjórir af merkustu fossum landsins, Kjálkaversfoss, Hrútshólmafoss, Dynkur og Gljúfurleitarfoss yrðu vatnslausir eða því sem næst.
Niðurstaðan í umsögn Náttúrugriða er að ekki sé unnt að rökstyðja stækkun virkjananna þriggja án þess að farið yrði samhliða í Kjalölduveitu úr Þjórsá. „Lög sem veittu brautargengi framangreindum stækkunum, eða öðrum viðlíka, gengju gegn almannahag, allsherjarreglu og viðskiptasiðferði. Því má ekki samþykkja frumvarpið eins og það liggur fyrir nefndinni,“ segir þar.