Gögn úr mælum Veðurstofu Íslands við eldstöðina Öskju sem safnast hafa í vetur voru sótt í dag eftir að mælar tengdust. Landris hefur haldið áfram í Öskju í vetur, en í lok desember hafði land risið um tuttugu sentímetra frá því í ágúst 2021.
„Í fljótu bragði þá hefur, eins og við héldum, haldið áfram landris í Öskju í allan vetur. Það er orðið talsvert,“ segir Benedikt Gunnar Ófeigsson sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofu Íslands.
Ekki hefur verið unnið úr þeim gögnum sem í var náð í dag, en að sögn Benedikts eru „talsverð rismerki og á fullri ferð“, á svæðinu.
„Þetta þýðir að öllum líkindum að það sé kvika að safnast fyrir á einhverju þriggja eða fjögurra kílómetra dýpi. Það er svona það sem er líklegast að valda þessu, að það sé kvikusöfnun þarna núna sem hefur byrjað í haust,“ segir Benedikt.
Spurður hver möguleg þróun í Öskju verður miðað við þetta segir Benedikt:
„Við vitum í rauninni ekkert hvernig framhaldið verður, en við vöktum þetta og gerum ráð fyrir að þetta geti haldið áfram og jafnvel endað í eldgosi. Það er ekki langt síðan það gaus þarna, ekki nema 60 ár. Það má alveg gera ráð fyrir því, en það er engin leið að vita. Það eina sem við getum gert er að vakta þetta og sjá hvernig þetta þróast.“