Fyrsta opinbera heimsókn forsætisráðherra í 24 ár

Múte B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Múte B. Egede, formaður grænlensku landsstjórnarinnar, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Ljósmynd/Stjórnarráð Íslands

Áframhaldandi gott samstarf Íslands og Grænlands var efst á baugi í opinberri heimsókn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra til Nuuk sem fram fór í gær og fyrradag. Heimsóknin var í boði Múte B. Egede, formanns grænlensku landsstjórnarinnar, og fyrsta heimsókn íslensks forsætisráðherra til Grænlands síðan árið 1998.

Á fundi þeirra Katrínar var rætt um náið samstarf landanna og þau tækifæri sem eru fyrir hendi til að efla samskiptin enn frekar, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins.

Þar voru Katrín og Múte sammála um að leggja áherslu á mögulegan fríverslunarsamning, sjávarútveg og ferðaþjónustu, menntun og rannsóknir, jafnrétti og orku- og loftslagsmál. Þau fyrirhuga annan fund síðar á árinu til að formgera þessa samskipti frekar.

Þau ræddu einnig sérstaklega þær áskoranir sem löndin tvö standa frammi fyrir á sviði loftslagsmála þar sem bráðnun jökla og önnur áhrif hlýnunar jarðar raungerast á degi hverjum. Ráðherrarnir ræddu einnig stöðuna á alþjóðavettvangi, auðlindanýtingu og ýmis samfélagsmál sem Ísland og Grænland eiga sameiginleg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert