Jarðskjálftahrinurnar leggjast misjafnlega í fólk

Fannar Jónasson er bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson er bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Bæjarstjóri Grindavíkurbæjar segir mikilvægt að bæjarbúar fái góða mynd af stöðunni þar vegna skjálftahrinu á Reykjanesskaga. Hefur af þeim sökum verið boðað til íbúafundar annað kvöld. Bæjarstjórinn segir hrinurnar leggjast misjafnlega í Grindvíkinga.

Fundurinn hefst klukkan 19:30 og munu sérfræðingar fara yfir stöðuna og svara spurningum. 

„Fyrst og fremst verið að fara yfir stöðuna eins og hún er núna og síðustu daga. Okkur þótti fyrsti kosturinn vera að boða til íbúafundar og gefa þar með sem flestum kost á því að fá þessar upplýsingar,“ segir Fannar Jónasson bæjarstjóri. 

Nokkuð var um skjálfta á svæðinu um helgina og mældist sá stærsti 4,7. 

„Um helgina voru nokkrir skjálftar yfir þremur að stærð. Þeir voru nálægt okkur, svo við fundum óþyrmilega fyrir þeim. Síðan hefur dregið verulega úr þessu og það er varla að við finnum skjálfta lengur, þótt þeir mælist hérna í kringum okkur. Þeir eru bara af smærri gerðinni,“ segir Fannar. 

Mikilvægt að fólk fái sem besta mynd af stöðunni

Spurður hvort bæjarbúar séu órólegir vegna hrinunnar segir Fannar: 

„Það er misjafnt hversu vel eða eftir atvikum illa fólk tekur svona jarðskjálftahrinum þegar þær byrja. Okkur finnst bara mikilvægt að veita sem bestar upplýsingar um stöðuna. Það er mjög mikilvægt að fólk fái sem besta mynd af því sem er að gerast frá þeim sem eru að vakta þetta fyrir okkur og hafa mestu vitneskjuna.“

Eru þessir skjálftar eitthvað í líkingu við þá sem urðu áður en gos hófst í Fagradalsfjalli [fyrir rúmu ári síðan]? 

„Ég get ekki sagt það en stærsti skjálftinn var yfir fjórum og þegar hann er svona nálægt verður auðvitað heilmikill hristingur.“

Lífið gengur sinn vanagang

Aðspurður segir Fannar að í sjálfu sér sé enginn aukinn viðbúnaður á svæðinu.

„Það er fyrst og fremst verið að fara yfir, eins og við reynum að gera reglulega, viðbúnað og áætlanir sem hafa verið gerðar fyrir allar stofnanir. Það er brýnt fyrir fólki að gæta að lausum munum sem kunna að geta fallið niður, sérstaklega þar sem fólk sefur. Að öðru leyti gengur lífið bara sinn vanagang hjá okkur. Við höfum svo sem búið við þetta öðru hvoru í tvö ár svo það má segja að að einhverju leyti venjist þetta líka.“

Íbúafundurinn hefst, eins og áður segir, klukkan 19:30 annað kvöld. Grindvíkingar geta annað hvort látið sjá sig eða horft á hann í beinu streymi. Í lok fundarins verður samantekt á pólsku fyrir pólskumælandi íbúa. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert