Ökumenn á nöglum eigi sér engar málsbætur

mbl.is/Kristinn Magnússon

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að þeir ökumenn, sem enn aki um á negldum hjólbörðum, eigi sér litlar málsbætur, enda verulega farið að vora. Mega þeir, sem staðnir eru að því að aka um á negldum hjólbörðum, því eiga von á vænni sekt en 20.000 króna sekt liggur við hverjum negldum hjólbarða sem undir bílnum er.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu, sem segir einnig frá því að í morgunsárið hafi maður sparkað upp hurð að íbúð í fjölbýlishúsi í Reykjavík en viðkomandi var gestkomandi í næstu íbúð. Ekki er vitað hvað manninum gekk til, en vitað er hver hann er, að sögn lögreglu.

Innbrotsþjófurinn reyndist vera húsráðandi

Þá var tilkynnt um yfirstandandi innbrot í íbúðarhúsnæði í Kópavogi og höskuðu vaskir laganna verðir sér á vettvang, að því er lögreglan greinir frá. Þar reyndist þó enginn innbrotsþjófur á ferðinni heldur húsráðandi sjálfur en hann hafði farið inn um glugga á eigin íbúð. „Var hann ölvaður mjög, hafði týnt húslyklunum og beitti því þessari óhefðbundnu aðferð við inngöngu á heimili sitt,“ segir í tilkynningu lögreglu. 

Þá var ölvaður maður á ferðinni í miðborginni, „eða öllu heldur ekki á ferðinni, þar sem hann svaf djúpum ölvunarsvefni. Var viðkomandi vakinn af ljúfum blundi og hélt hann leið sína.“

Þá var tilkynnt um reyk sem bærist frá fjölbýlishúsi í miðborginni og var nokkur viðbúnaður viðhafður vegna þessa. Þar reyndist eldur hafa kviknað í ruslapoka á svölum íbúðar og hafði rúða sprungið í íbúðinni við hitann. Íbúðin var mannlaus, enda ekki búið í henni þar sem framkvæmdir standa yfir. Eldsupptök liggja ekki fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert