Trampólín, sem sett var upp við Granaskjól í vesturbæ Reykjavíkur og hefur vakið nokkra athygli á facebooksíðu hverfisins, er ekki á borgarlandi og því er ekki verið að „stela“ landsvæði undir hoppið.
Í svari við fyrirspurn mbl.is vegna málsins segir upplýsingafulltrúi Reykjavíkurborgar að trampólínið sé ekki staðsett á borgarlandi. Um sé að ræða sameiginlega lóð aðliggjandi húsa sem sjái um rekstur og viðhald hennar.
Heitar umræður hafa skapast um málið í Facebook-hópnum Vesturbærinn þar sem því er haldið fram að trampólínið sé á borgarlandi og verið sé að taka hlut af rólóvelli fyrir nokkur útvalin börn.