Viðreisn reynir að fá Framsókn að borðinu

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík. mbl.is/Ágúst Ólíver

Gangi Framsóknarflokkurinn inn í fallinn núverandi meirihluta teljist það sem nýr meirihluti fremur en að Framsókn bjargi falli hans. Framsókn eigi mikið sameiginlegt með meirihlutanum og líklegt sé að Framsókn og Viðreisn myndi saman meirihluta ásamt öðrum flokkum á komandi kjörtímabili. Þetta segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar í Reykjavík í nýlegri Facebook-færslu.

„Slíkur meirihluti yrði annar meirihluti en sá sem er nú að líða undir lok. Það er alveg augljóst,“ segir Þórdís í færslunni en hún segist hafa átt gott kaffispjall við Einar Þorsteinsson, oddvita Framsóknarflokksins, og telji ekki ólíklegt flokkar þeirra vinni saman í meirihluta á næsta kjörtímabili, sama hvort flokkarnir halli sér til vinstri eða hægri.

„Í þessum fyrstu skrefum munum við standa saman; Viðreisn, Samfylking og Píratar. Við vitum að málefnalega eigum við samleið í mikilvægum málaflokkum sem snúa að framtíð borgarinnar; í skipulagsmálum, samgöngumálum og stafrænu uppbyggingunni,“ segir í færslunni. Bætir hún svo við að Framsóknarflokkruinn muni passa vel inn í þetta samstarf en kosningabandalag Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar svo gott sem tryggir Degi B. Eggertssyni, oddvita Samfylkingarinnar, áframhaldandi setu í borgarstjórastóli.

Segir Framsókn og Viðreisn eiga samleið

Ekki geta Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur myndað meirihluta án þessara flokka nema hann innihaldi Sósíalistaflokkinn, sem hefur gefið það út að hann muni ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum. „Þetta eru allt saman málaflokkar þar sem Framsóknarflokkurinn virðist standa nærri okkur, sé mið tekið af kosningaloforðum,“ segir Þórdís jafnframt í færslunni.

Fyrir kosningar hafði Einar Þorsteinsson og Framsókn talað fyrir breytingum í borginni og því hefur myndast töluverð óánægja með þá hugmynd að Framsókn losi núverandi meirihluta úr snörunni og tryggja það að meirihlutinn haldi völdum. Gangi það gegn því sem flokkurinn hafi talað fyrir í aðdraganda kosninga.

Erfitt þegar sumir svara ekki símtölum

Myndun meirihluta verður líklega strembin þar sem margir flokkar hafi útilokað hvorn annan. Sósíalistar hafa útilokað Viðreisn og Sjálfstæðisflokk og Píratar einnig útilokað Sjálfstæðisflokk. Vinstri græn hafi gefið það út að þau muni ekki leitast eftir því að taka þátt í meirihlutasamstarfi á komandi kjörtímabili. Dagur B. hefur ekki svarað símtölum Hildar Björnsdóttur, oddvita Sjálfstæðisflokksins eftir kosningar þrátt fyrir að þau séu formenn tveggja stærstu borgarstjórnarflokkana.

Þar sem Viðreisn og Píratar hafa ákveðið að standa bakvið Dag í meirihlutaviðræðum geta þau ekki myndað meirihluta nema með því að vera styrkt af annað hvort Framsóknarflokki eða Sjálfstæðisflokki. Hugnast Samfylkingu og Pírötum betur að starfa með Framsókn og því er útspil Viðreisnar, að segja að núverandi meirihluti auk Framsóknar sé nýr meirihluti, mikilvægt í því að fá Framsókn nær borðinu.

Útspil Viðreisnar mikilvægt fyrir Dag

Haldi Dagur því til streitu að svara ekki símtölum Hildar er því eina mögulega meirihlutastjórnin sú stjórn sem nú myndar kosningabandalag auk Framsóknarflokks. Er því uppi einskonar störukeppni þar sem annað hvort fari Framsókn í viðræður við núverandi meirihluta. Eða Viðreisn slíti kosningabandalaginu við Samfylkingu og Pírata og gangi í viðræður við Framsókn, Sjálfstæðisflokk og Flokk Fólksins, en þetta eru þeir möguleikar sem hva mest hafa verið ræddir þó fleiri möguleikar séu í stöðunni.

Fráfarandi meirihluti. Kæmi Framsókn inn fyrir Vinstri Græn.
Fráfarandi meirihluti. Kæmi Framsókn inn fyrir Vinstri Græn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka