Kristín Jónsdóttir, hópstjóri náttúruvárvöktunar hjá Veðurstofunni, sagði í kvöld á íbúafundinum í Grindavík að ef skoðað væri hvernig skjálftarnir dreifist á Reykjanesskaganum megi sjá að þeir séu dreifast allt í kring.
Sagði Kristín að búast mætti við því næstu daga og mánuði að jarðskjálftahrinan myndi halda áfram, en skjálftarnir stafa af þrýstingi vegna kviku sem vantar meira rými.
Virknin muni halda áfram á svipuðum slóðum við Þorbjörn/Svartsengi og á Reykjanesskaganum og að það verði að teljast líklegt að það styttist í næsta stóra skjálftann, en síðast reið slíkur skjálfti yfir fyrir um það bil 50 árum (6-6,5 að stærð).
Hún benti þó á að áhrif yrðu meiri á höfuðborgarsvæðinu en í Grindavík vegna skjálfta austur af Kleifarvatni.
Kristinn Harðarson, framkvæmdastjóri framleiðslu HS orku, flutti einnig erindi á fundinum og benti á að virkjunin í Svartsengi sé mikilvæg Reykjanesskaganum.
Hann sagði að jarðskjálftahrinurnar í fyrra hefðu haft sáralítil áhrif á virkjunina. Hún hefði staðist þolpróf þessara nátturuafla og engin frávik orðið á rekstrinum.
Þó urðu nokkrar skemmdir á virkjuninni, en t.d. komu upp sprungur í byggingum HS orku, hrun varð í grjóthleðslum og heitavatnstankur skemmdist.
HS orka mun hafa farið ítarlega yfir viðbragðsáætlanir ef eldgos skyldi hefjast í nágrenni við virkjunina.
Búið er að skilgreina flóttaleiðir frá Svartsengi, auk þess sem áætlanir hafa verið í bígerð um hraunflæðivarnir, en Kristinn sagði að ef hraun kæmi upp á óheppilegum stað yrði mögulega gripið til slíkra ráðstafana.