Grunaður um mansal á ungum dreng

Lögregla hafði afskipti af karlmanni sem hafði ungan dreng í …
Lögregla hafði afskipti af karlmanni sem hafði ungan dreng í för með sér. Þeir komu saman með flugi frá Kaupmannahöfn Ljósmynd/ Aðsend

Karlmaður, grunaður um mansal á ungum dreng, var úrskurðaður í 10 daga gæsluvarðhald sem rennur út í dag. 

Grunur leikur á að brotið hafi verið gegn barninu kynferðislega og það beitt vanvirðandi meðferð. 

Óskaði eftir alþjóðlegri vernd

Þann 28. apríl hafði lögregla afskipti af karlmanni sem hafði ungan dreng í för með sér. Þeir komu saman með flugi frá Kaupmannahöfn og voru  án ferðaskilríkja, en karlmaðurinn framvísaði afritum af ætluðum vegabréfum. 

Karlmaðurinn óskaði í framhaldinu eftir alþjóðlegri vernd fyrir sína hönd og drengsins. 

Hann kvaðst hafa verið á flakki um Evrópu í þrjú ár ásamt barninu, og skilið það um tíma eftir hjá skyldmennum.

Þá framvísaði hann gögnum til stuðnings heimild sinni til að ferðast með barnið, en lögregla telur skjalið ótraust og geta sérfræðingar ekki fullyrt um innihaldið, að því sem fram kemur í dómi Héraðsdóms Suðurnesja, sem staðfestur var af Landsrétti. 

Breytti framburði sínum

Lögregla vinnur að því að sannreyna framburð mannsins, sem þykir ótrúverðugur. Þá er einnig unnið að því að bera kennsl á manninn og barnið, rekja ferðir þeirra og finna forráðamenn barnsins. 

Þann 9.maí var maðurinn yfirheyrður og breytti þá framburði sínum. Gaf hann aðrar skýringar á ferðum sín og barnsins en hann hafði áður gefið og nú vinnur lögregla að því að rekja ferðir þeirra út frá þeim upplýsingum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert