HS Orka og Bláa lónið í viðbragðsstöðu

„Við erum á virku svæði, og erum vissulega að nýta þá auðlind sem eldvirknin er. Hætta á eldgosi er því eitthvað sem við þurfum að lifa við í okkar umhverfi,“ segir Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku.

Ástandið á Svartsengi, vegna landriss og kvikusöfnunar, er að hans sögn, svipað því sem var árið 2020.

„Við gerðum aðgerðaráætlanir á sínum tíma og höfum farið yfir þær, svo erum við með fulltrúa í vísindaráði Almannavarna svo við erum í öflugum samskiptum.“

Fari allt á versta veg

Tómas segir mikilvægt að halda ró sinni.

Aðspurður hvað felist í aðgerðaráætlunum þeim sem HS Orka hafi undirbúið, segir Tómas að þær komi fyrst og fremst inn á að tryggja öryggi fólks á svæðinu.

Þá sé einnig gert ráð fyrir nánu samstarfi við almannavarnir við að tryggja afhendingu á heitu og köldu vatni til viðskiptavina á svæðinu. 

Fari allt á versta veg eru þar áætlanir um hvernig sé hægt að vernda mannvirki. 

Hótelgestir upplýstir um gang mála

Eftir að óvissustigi vegna jarðskjálftanna á Reykjanesskaga var lýst yfir þann fimmtánda maí hefur öryggisteymi Bláa lónsins farið yfir allar sínar áætlanir og viðbúnað, að sögn Helgu Árnadóttur framkvæmdastjóra sölu-, markaðs- og þróunarsviðs Bláa lónsins. 

„Starfsmenn og hótelgestir, sem dvelja hjá okkur, eru upplýstir um gang mála, en starfsemin er að öðru leyti óbreytt. Ef til frekari viðbúnaðar kemur erum við í nánum samskiptum við Almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og fylgjum fyrirmælum þeirra í hvívetna.“

Þá bendir Helga á að mannvirki Bláa lónsins séu byggð með það í huga að eiga að geta tekist á við náttúruvá sem þessa. Hún hefur því ekki miklar áhyggjur af þeim. 

Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og þróunarsviðs Bláa lónsins.
Helga Árnadóttir er framkvæmdastjóri sölu-, markaðs- og þróunarsviðs Bláa lónsins. Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert