Minna malbikað en metárið í fyrra

Minna verður malbikað en í fyrra.
Minna verður malbikað en í fyrra. mbl.is/​Hari

Ívið minna verður malbikað um landið allt í ár heldur en í fyrra, enda var síðasta ár eitt það stærsta í sögu Vegagerðarinnar þegar kemur að slitslagsverkefnum.

Þetta segir Óskar Örn Jónsson, forstöðumaður framkvæmdadeildar Vegagerðarinnar.

Hann bætir við að stóra árið í fyrra hafi helgast af innspýtingu í málaflokkinn ásamt góðu tíðarfari. „Vetur kom seint og menn höfðu tækifæri til að vinna meira í þessu viðhaldi en oft áður,“ segir Óskar Örn.

Hann nefnir að Vegagerðin bregðist við og efli slitlög þegar umferð aukist á ákveðnum svæðum, til dæmis vegna breyttrar atvinnustarfsemi. Dæmi um þetta eru Vestfirðir þar sem þungaflutningar hafa aukist í kringum sjókvíaeldi.

Aukinn straumur ferðamanna hefur einnig sín áhrif og bendir hann á að ein rúta brjóti niður veg álíka mikið og um það bil 10 þúsund smábílar. „Þetta segir okkur að með fleiri slíkum farartækjum kallar það á mun meira viðhald á þeim vegum.“

Spurður út í stöðu mála á gullna hringnum svokallaða þar sem ferðamenn eru fjölmennir segir Óskar Örn að ekki eigi að malbika meira þar í ár en venjulega. Hlutfall malbiks hefur þó verið aukið, til dæmis á Þingvallavegi og Biskupstungnabraut, vegna aukinnar umferðar með tilkomu ferðamanna, en slíkt kostar rúmlega þrisvar sinnum meira en klæðning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka