Karlmaður á sextugsaldri var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjaness í sex ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn fimm stúlkum á grunnskólaaldri. Finnur Þór Vilhjálmsson saksóknari staðfesti dóminn í samtali við mbl.is.
Maðurinn var sakfelldur fyrir hluta þeirra brota sem hann var ákærður fyrir, en hann er grunaður fleiri kynferðisbrot sem enn eru til rannsóknar.
Þá var maðurinn einnig úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald í mánuð til viðbótar, sem er sá frestur sem hann hefur til áfrýjunar, en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í nóvember.
Samkvæmt frétt RÚV um málið var maðurinn ákærður fyrir fjölda grófra kynferðisbrota gegn stúlkunum, meðal annars nauðgun. Voru sumar stúlkurnar sagðar hafa sent manninum kynferðislegt myndefni og hann þeim.
Þá var hann sagður hafa sent einni stúlkunni kynlífshjálpartæki, undirföt, rafrettur, áfengi og fleira gegn því að hún sendi honum myndefni í gegnum samskiptaforritið Snapchat.