Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir áfanga hafa verið náð í húsnæðismálum í gær þegar húsnæðishópur þjóðhagsráðs skilaði tillögum sínum. Verkalýðshreyfingin hefði hins vegar viljað ganga enn lengra í ljósi þess að staðan á leigumarkaði hjá þeim sem bera íþyngjandi vaxtahækkanir sé orðin óbærileg.
Verkalýðshreyfingin hafi engu að síður staðið að skýrslunni, enda hangi við hana yfirlýsing um ný húsaleigulög í haust á forsendum þess sem áður hafi verið lofað.
Hún segir það ljóst að umbætur í húsnæðismálum sé ein forsenda kjarasamningsgerðar í haust. Þetta kemur fram í nýjum pistli Drífu á vef ASÍ.
„Í skýrslunni er jafnframt viðurkennt það viðmið að húsnæðiskostnaður eigi að vera 25% af tekjum fólks og ef hann fer umfram 40% er húsnæðiskostnaður orðinn íþyngjandi. Loksins er komið viðmið um hvað telst ásættanlegur húsnæðiskostnaður og þá skal miða uppbyggingu húsnæðis og húsnæðisstuðning hins opinbera við það.“
Þá segir Drífa að við séum komin nær því en nokkurn tíma að geta áætlað húsnæðisþörfina fram í tímann, en í skýrslunni kemur fram að þörf sé á 4.000 íbúðum árlega á landsvísu næstu fimm árin og 3.500 íbúðir næstu fimm ár þar á eftir.
„Enn erum við að súpa seyðið af bankahruninu þegar byggingamarkaðurinn fór í frost og við höfum ekki náð upp í þær alvarlegu afleiðingar. Af þessum nýbyggingum næstu árin eiga því sem næst 30% íbúðanna að vera í almenna íbúðakerfinu, sem sagt byggð af óhagnaðardrifnum leigufélögum eins og Bjargi. Þetta er hærra hlutfall en áður hefur verið miðað við og ef vel tekst til þá mun þetta hafa veruleg áhrif á húsnæðisöryggi og afkomu.“
Drífa staldrar einnig við við tillögur í skýrslunni um endurbætur á húsnæðisstuðningi hins opinbera. ASÍ hafi sýnt fram á það í vetur að stuðningurinn færi frekar til þeirra sem eru tekjuhæstir en lág- og millitekjuhópa. Á grunni þeirra gagna verði farið í að endurskipuleggja húsnæðisstuðning
„Ég segi það enn og aftur: Húsnæðismál eru stærsta lífskjaramálið, bæði húsnæðiskostnaður og ekki síður húsnæðisöryggi. Það náðist áfangi í þeirri baráttu í gær og við fylgjum því fast eftir,“ segir Drífa.