„Það er í gangi framhaldssaga og erfitt að segja fyrir um efni næsta kafla. Það hefði enginn trúað þessari sögu ef við hefðum sagt hana fyrir tíu árum,“ segir Páll Einarsson, prófessor emeritus, spurður að því hvað sé í gangi á Reykjanesi.
„Þetta er mjög flókin atburðarás og kemur í beinu framhaldi af því sem verið hefur í gangi frá því í desember 2019, að minnsta kosti,“ segir Páll. Hann rifjar upp að landris hafi hafist undir Fagradalsfjalli eftir að gosið lognaðist út af. Kvikan hafi byrjað að safnast við botninn á jarðskorpunni þegar hún hætti að geta komist upp á yfirborðið.
Síðan hafi hafist nýtt landris um síðustu mánaðamót undir fjallinu Þorbirni og nágrenni þess. Sú þróun sé endurtekning á því sem gerðist á fyrri hluta árs 2020, þrisvar í röð með hléum á milli. Samkvæmt tilkynningu vísindaráðs almannavarna er talið að kvikan safnist fyrir á 4-5 km dýpi og þar sé að myndast innskot. Veldur kvikusöfnunin umtalsverðri jarðskjálftavirkni.
Páll segir að sömu sviðsmyndir eigi við nú og í aðdraganda gossins í Geldingadölum en erfitt sé að meta hver sé líklegust til að ganga eftir. Hann veltir því þó fyrir sér hvort þáttaskil hafi orðið við jarðskjálftann sem varð í Þrengslunum á kjördag. Hann stækki umtalsvert svæðið sem er undir í þessu efni. Sviðsmynd sem feli sér stóran skjálfta í Brennisteinsfjöllum sé því heldur líklegri en áður. Tveir slíkir skjálftar, 6-6,5 stig, urðu þar á síðustu öld.
Spurður um líkur á gosi segir Páll að þannig sviðsmyndir komi einnig til greina, í ljósi sögunnar. Þegar kvika er að safnast fyrir séu einhverjar líkur á því að hún komist upp á yfirborðið. Páll segir að það þurfi ekki endilega að verða í næsta nágrenni Grindavíkur eða í Svartsengi, sem eru í útjaðri svæðisins sem rís, því kvikan hafi tilhneigingu til að leita útgangs fyrir utan. Nefnir hann gosið í Holuhrauni sem og Kröfluelda á 8. og 9. áratugnum sem dæmi um það.