Fólk orðið fullvant því að jörð skjálfi

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur var frummælandi og fór yfir stöðu …
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur var frummælandi og fór yfir stöðu og horfur. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fjölmenni var á íbúafundi í Grindavík í gærkvöldi, þar sem farið var yfir stöðu mála vegna óvissustigsins sem lýst hefur verið yfir vegna jarðhræringa síðustu daga á Reykjanesskaga.

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur var fundarstjóri, en hann sagði í samtali við Morgunblaðið að fundinum hefði verið ætlað að svara spurningum á borð við hversu líklegt væri að eldgos myndi hefjast við Grindavík.

Sagði hann að Grindvíkingum liði misilla með jarðskjálftahrinuna, sem hefði kveikt á gömlum minningum um erfiða tíma þegar langvarandi jarðskjálftahrina skók bæinn á síðasta ári. „Þannig að fólki líður ekkert vel með það þegar það byrjar svona hrina á nýjan leik,“ sagði Fannar og bætti við að það væri spurning hversu lengi hún myndi vara. „Þannig að það er auðvitað ekkert þægilegt við að búa við þessar aðstæður, en annað er ekki í boði,“ sagði Fannar og bætti við að hann væri tiltölulega rólegur yfir þessu og að flestir tækju þessu með jafnaðargeði.

Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, sagði við Morgunblaðið að meðlimir sveitarinnar væru komnir með mikinn reynslubanka. „Fólk ætti nú að vera orðið pínu vant þessu, því miður. Það er kannski það versta við þetta. Að treysta á þetta er orðið nánast eins og það sé til nammi í sjoppunni,“ sagði Bogi.

Gæti valdið miklu tjóni

„Hraungos á vondum stað getur valdið miklu tjóni,“ sagði Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur, sem var frummælandi á íbúafundinum. Hann sagði hins vegar að litlar líkur væru á að slíkt gos ylli manntjóni.

Í máli Magnúsar Tuma kom fram að síðasta eldgosið á Reykjanesskaga fyrir gosið í Geldingadölum hefði verið árið 1240 og því hefðu engin eldgos orðið á Reykjanesskaganum í tæplega átta hundruð ár.

Hann benti einnig á að ekki væri hægt að spá fyrirfram hvernig slíkt eldgos gæti æxlast. Sagði Magnús Tumi að gossprungur síðustu 15.000 ára næðu ekki til sjávar á skaganum síðan ísa leysti og benti á að samkvæmt jarðfræðinni ætti eldgos ekki að ná til Grindavíkur.

Hann sagði einnig að ómögulegt væri að vita hvenær eldgos myndi hefjast. Jarðskjálftahræringar síðustu daga gætu þess vegna hætt í dag.

Nánar er fjallað um fundinn í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert