Gögn frá mælum Veðurstofu Íslands sýna fram á að land við eldstöðina Öskju hefur risið um 0,3 metra frá því í ágúst.
Þetta segir Benedikt Gunnar Ófeigsson sérfræðingur á sviði jarðskorpuhreyfinga hjá Veðurstofunni.
Hann segir það líklegast að kvika sé að safnast fyrir á tveggja kílómetra dýpi. Kvikusöfnunin er tiltölulega grunn og valdi því talsverðu landrisi.
„Á meðan þetta heldur áfram þá mundi ég segja að það aukist líkur á því að það gjósi í nánustu framtíð. En svona atburðarás getur dregist mjög á langinn,“ segir Benedikt og bætir því við að síðast var landris við Öskju á árunum 1967 til 1972. Risið nú sé þó mun hraðar en þá.
Aðspurður segir Benedikt að líklegt sé að um 14 milljón rúmmetrar af kviku séu búnir að safnast undir eldstöðinni.
Til samanburðar er það eins og ferköntuð sundlaug þar sem lengd, breidd og dýpt jafnast á við hæð rúmlega þriggja hallgrímskirkna, eða um 241 metri á alla kanta.
„Ég held að menn verði að vakta þetta vel, sérstaklega á sumrin yfir ferðamannatímabilið.“