Semja á um krónutöluhækkanir og hagvaxtarauka í komandi kjarasamningum og ná þarf samstöðu um að framlengja lífskjarasamninginn á svipuðum nótum og nú er byggt á, með aðkomu stjórnvalda og sveitarfélaga, og markmiðið er að tryggja kaupmátt launa.
Þetta kemur fram í kröfugerð stéttarfélagsins Framsýnar sem samninganefnd félagsins hefur samþykkt og birt er á vef félagsins. Er Framsýn fyrst verkalýðsfélaga svo vitað sé til að birta kröfugerð vegna komandi kjarasamninga.
Félagið hefur veitt Starfsgreinasambandinu (SGS) og Landssambandi ísl. verslunarmanna (LÍV) umboð til að semja fyrir hönd félagsins en landssamböndin munu svo leggja fram sameiginlega kröfugerð fyrir hönd aðildarfélaga. Boðaður er tveggja daga vinnufundur formanna í SGS eftir helgi þar sem fara á yfir kröfur og áherslur aðildarfélaganna.
Aðalsteinn Á. Baldursson, formaður Framsýnar, segir mikla undirbúningsvinnu hafa farið fram við mótun kröfugerðarinnar. Almenn ánægja sé með þá leið sem farin var í lífskjarasamningnum og ná þurfi þríhliða samkomulagi launþega, atvinnurekenda og stjórnvalda með margvíslegum aðgerðum. Félagsmenn leggi m.a. áherslu á að stjórnvöld komi að með aðgerðum til að auka jöfnuð í búsetuskilyrðum á landinu.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.