Með innrás Rússa í Úkraínu hófst ný flóðbylgja af upplýsingaóreiðu yfir Evrópu. „Þeir sem eru líklegir til að dreifa svona upplýsingaóreiðu núna eru meðal annars þeir sem voru dreifðu áróðri gegn bólusetningum við Covid-19,“ segir Elfa Ýr Gylfadóttir, framkvæmdastjóri Fjölmiðlanefndar.
„Upplýsingaóreiða á ófriðartímum“ var yfirskrift málstofu sem Háskólinn á Bifröst stóð fyrir í vikunni í samstarfi við Blaðamannafélag Íslands og Fjölmiðlanefnd.
Elfa Ýr fór yfir það hvernig áróður hefur verið notaður sem vopn í stríðinu, í erindi sínu.
Upplýsingaóreiða er þáttur í því sem kallast fjölþóttaógn, að sögn Elfu. Þannig eru háð stríð á tveimur vígvöllum, annars vegar hernaðarlegt stríð og hins vegar áróðursstríð.
„Þetta er eitthvað sem við þekkjum úr kalda stríðinu, frá hendi rússneskra yfirvalda. Þær aðferðir eru svo uppfærðar með miðlunarleiðum 21. aldarinnar.“
Hún bendir á að eftir innlimun Krímsskaga árið 2014 hafi mikil upplýsingaóreiða skollið á Evrópu. Því hafi verið sett á laggirnar sérstök nefnd í Evrópu árið 2015 sem var ætlað að greina upplýsingaóreiðuna, umfang falsfrétta og hvaða sögum væri verið að dreifa.
Eftir innrásina hefur upplýsingaóreiða og falsfréttir gert vart við sig á fjórum sviðum, að sögn Elfu.
Í fyrsta lagi er um að ræða áróður rússneskra stjórnvalda heima fyrir sem beinist að eigin borgurum, til þess að tryggja stuðning við aðgerðir þeirra.
Í öðru lagi áróður sem beinist að Úkraínumönnum og hefur þann tilgang að sundra þjóðinni og veikja trú fólks á forystunni.
Í þriðja lagi er upplýsingaóreiða sterk í fyrrum Sovét ríkjum, þar sem finna má rússneska minnihlutahópa.
Í fjórða lagi beinist áróður út á við að þjóðum ríkja í NATO og Evrópusambandinu, sem er ætlað að veikja tiltrú almennings á þeim aðgerðum sem ríkin hafa gripið til gagnvart Rússlandi.
Sem dæmi um hið síðast nefnda er hræðsluáróður sem ætlað er að skapa óvild gagnvart úkraínskum flóttamönnum.
„Faglegir og sjálfstæðir fjölmiðlar eru aldrei mikilvægari en á svona tímum.“
Þekking, greiningarfærni og val á trúverðugum heimildum, er helsta vopnið gegn upplýsingaóreiðu, að mati Elfu Ýrar.
Hún bendir á að samsæriskenningar falli betur í jarðveg þar sem vantraust í samfélaginu er mikið.
Borið hefur á því að frásögnum Rússa og Úkraínumanna, af gangi stríðsins, ber ekki saman.
„Rússar eru alveg sérstakir þegar kemur að falsfréttum og áróðri því þeir bera á borð hreinan uppspuna, segja að eitthvað hafi aldrei gerst, sært fólk séu leikarar og þar frameftir götunum.“
Úkraína reynir á hinn bóginn að fá fólk á sitt band með því að fegra aðstæður. „Þeir segja kannski að það gangi betur en hefur gengið og ýkja tölur þeirra sem fallið hafa í liði Rússa.“