Kári fagnar 25 ára afmæli ÍE

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fagnaði í vikunni 25 ára afmæli fyrirtækisins en sérstök afmælisráðstefna fór fram daganna 18. og 19. maí.

Kári sagði í samtali við mbl.is að fögnuðurinn hafi gengið feiknar vel og að það sé búið að vera mjög gaman. 

Stoltur í endurliti

„Það er svolítið skrítið að líta svona til baka um farinn veg,“ segir Kári og bætir við að í sameiningu hafi fyrirtækið náð að afreka mjög mikið og að hann sé gífurlega stoltur.

„Það fer öllum saman, sem máli skiptir, að við höfum leitt þetta svið allan þennan tíma og höldum áfram að gera það á heimsmælikvarða. Að það skuli vera hægt hér á Íslandi er alveg með ólíkindum.“ 

Bendir Kári þá á að þegar þau byrjuðu fyrir 25 árum hafi hér á landi ekki verið nein reynsla né hefð og engin þekking á þessu sviði og hafi Íslensk erfðagreining því byggt þetta allt frá grunni. Bætir Kári þá við að svona starfsemi er ekki að finna neins staðar í Norður-Evrópu.

Aðspurður hvernig þetta hófst allt saman vísar Kári til ímyndunarafl síns sem virðist ekki þekkja nein takmörk.

„Við skulum orða það þannig að þetta á rætur sínar að rekja í ímyndunarafl manns sem að kunni sér ekki mörk og gerði sér ekki grein fyrir því að þetta væri ekki hægt.“

Að lokum tók Kári fram að hann sé einstaklega þakklátur öllu því fólki sem hann hefur unnið með, að leyfa sér að vera með sér í allan þennan tíma og þar að auki þolað sig í allan þennan tíma. „Það bendir til þess að þetta hafi ekki einungis gengið vegna hinnar íslensku liðsheildar heldur líka vegna hinnar íslensku þolinmæði,“ bætir Kári við.

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fór með erindi á ráðstefnunni.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, fór með erindi á ráðstefnunni. Ljósmynd/Aðsend

Vel sótt á ráðstefnuna

Að sögn Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur, upplýsingafulltrúa Íslenskrar erfðagreiningar, sóttu um 200 manns ráðstefnuna. Jafnt sóttu Íslendingar og erlendir aðilar ráðstefnuna.

„Á ráðstefnunni voru samankomnir margir af frægustu erfðavísindamönnum heims. Þar á meðal var 30 manna sendinefnd frá Amgen en einn af þessum gestum var forstjóri Amgen, Robert A. Bradway.“ 

Amgen er eitt af stærstu líftæknifyrirtækjum heims og jafnframt móðurfélag Íslenskrar erfðagreiningu. 

Að sögn Þóru heppnaðist fögnuðurinn einstaklega vel og ráðstefnan einstaklega áhugaverð. Var ráðstefnan tekin upp í heild sinni og er hægt að nálgast upptökuna hér neðst í fréttinni. Hér í spilaranum fyrir ofan er stutt myndband þar sem Kári Stefánsson slær á létta strengi á meðan hann fer með erindi á ráðstefnunni.

Fjölmenni sótti ráðstefnuna.
Fjölmenni sótti ráðstefnuna. Ljósmynd/Aðsend

Attachment: "" nr. 11702

 Dagur eitt.

Dagur tvö.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert