Nokkrir skjálftar mældust yfir tveimur að stærð á Reykjanesskaga í nótt og einn af stærðinni 3,3 mældist klukkan þrjú í nótt. Virknin á svæðinu er hviðukennd.
Á vef Veðurstofunnar kemur fram að virknin hafi verið talsverð í nótt en skjálftarnir hafi alls verið tæplega 300 á Reykjanesskaga frá miðnætti.
Í gærkvöldi, 20.maí kl. 18:33, varð skjálfti af stærð 3,8 rétt vestan við Reykjanestá og fannst hann í byggð. Kl. 18:06 varð skjálfti af stærð 3,4 á sömu slóðum og hafa honum fylgt nokkrir aðrir minni skjálftar.
Fram kom í fréttum á fimmtudag að land við Þorbjörn hefði risið um 2,5 cm síðustu tólf daga. Náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands segir risið hafa eitthvað aukist, án þess að hafa nákvæmar tölur fyrir framan sig.