Land hefur rofnað á mörgum stöðum í fjörunni við Vík í Mýrdal. Mikið rof er á flestum svæðum sem sérfræðingur hjá Kötlusetri mældi og Kötlugarður hefur einnig skemmst mikið. Fjaran er víða orðin stutt og brött. Í skýrslu Jóhannesar Marteins Jóhannessonar til Mýrdalshrepps sem Vegagerðin vitnar til í frétt á vef sínum er því haldið fram að rof af þessari stærðargráðu geti varla talist annað en náttúruhamfarir.
Forsvarsmenn Mýrdalshrepps hafa lengi barist fyrir varanlegri úrbótum á vörnum í fjörunni. Í tilkynningu sem sveitarstjórinn sendi íbúum í vikunni kemur fram að sjórinn heldur áfram að nálgast hesthúsin austan við Vík, sjór er farinn að ganga þar upp á rofabörðin og valda enn frekara tjóni en orðið er. Þorbjörg Gísladóttir sveitarstjóri segir að það sé aðeins tímaspursmál hvenær sjórinn nær til hesthúsanna.
Veðuraðstæður hafa verið óhagstæðar í vetur, með slæmum vestanáttum. Bæði hefur land rofnað mikið og sandur fokið yfir Víkurþorp til óþæginda fyrir íbúa.
„Sandfangarar eru það eina sem dugar. Við höfum lengi barist fyrir því að fá tvo sandfangara til viðbótar, annan við hesthúsin og hinn við Kötlugarðinn. Menn áttu þó ekki von á því að rofið héldi jafn lengi áfram fram í vorið og raun hefur orðið á, því enn er að klípast þarna af. Við höfum verið að óska eftir því að sérfræðingar Vegagerðarinnar komi til að skoða aðstæður, ræða við húseigendur og koma með tillögur um það hvað hægt sé að gera,“ segir Einar Freyr Elínarson, oddviti Mýrdalshrepps.
Vegagerðin byggði sandfangara 2011 og annan 2018. Í frétt á vef Vegagerðarinnar kemur fram að þeir verji núverandi byggð fyrir rofi. Annar sandfangarinn hafi safnað miklum sandi en hinn litlum.
Vegagerðin stefnir að því að hækka flóðvarnargarð sem liggur meðfram öllu þorpinu og byggður var fyrir aldamót. Garðurinn verði hækkaður um 50-70 sentimetra á þeim svæðum sem flætt hefur yfir, til að minnka hættuna á flóði á landi.
Nýr sandfangari sem verja á hesthúsin verður settur inn á samgönguáætlun á næstunni. Umræða er í gangi um aðrar lausnir, að því er fram kemur hjá Vegagerðinni, en stofnunin hefur ekki talið nauðsynlegt að ganga lengra en þetta í bili. Það þýðir að bið verður á því að fjórði sandfangarinn verði byggður. „Við erum hörð á því að hann þurfi að koma. Það er orðið stutt í þjóðveginn og Vegagerðin verður að verja hann,“ segir Einar Freyr.