Urður Egilsdóttir
Elín Anna Óladóttir útskrifaðist með 10 í meðaleinkunn úr Framhaldsskólanum á Húsavík í gær og varð því dúx með hæstu meðaleinkunn í sögu skólans.
Innt að því hvort hún hafi búist við því að dúxa segir Elín í samtali við mbl.is að henni hafi ekki fundist það sjálfsagt.
„Ég var svo sem ekki búin að pæla mikið í því. Ég vissi að námið hafði gengið vel, en það var fullt af öðrum krökkum sem höfðu staðið sig vel líka.“
Elín var á náttúruvísindabraut og segist stefna á eitthvað tengt raungreinum í framtíðinni en að margt komi til greina.
„Ég ætla út til Danmerkur núna í haust og fara í lýðháskóla á arkitektúrsbraut. Síðan er ég er ekki alveg búin að ákveða hvað ég ætla að læra í háskólanum, það er svo margt í boði. Ég ætla að taka mér þetta ár til að hugsa mig um.“
Elín fékk tíu í öllum áföngum sem hún tók á þriggja ára skólagöngu sinni. Hún segir að FSH sé frábær skóli. „Kennararnir eru frábærir og þjónustan persónuleg þar sem nemendurnir eru ekki mjög margir.“
Hver er lykillinn að velgengni þinni í náminu?
„Nám hefur alltaf legið tiltölulega vel fyrir mér og mér finnst gaman að læra nýja hluti, en ég líka hef alltaf lagt mig fram og gert mitt allra besta. Ef ég veit að ég hef gert mitt besta, þá er ég sátt,“ segir Elín að lokum.