Landrisið veldur mestum áhyggjum

Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur.
Fannar Jónasson bæjarstjóri Grindavíkur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fann­ar Jónas­son, bæj­ar­stjóri Grinda­vík­ur, segir í samtali við mbl.is að Grindvíkingar séu almennt æðrulausir er kemur að jarðskjálftahrinunni á Reykjanesskaga. 

Hann segir að sumir hafi meiri áhyggjur en aðrir, en alltaf sé óþægilegt er skjálftarnir ríða yfir. 

Tveir snarpir jarðskjálftar fundust í Grindavík rétt fyrir klukkan tíu í morgun en Fannar er ekki staddur í bænum svo hann hafði ekki náð tali á íbúum um stöðuna. 

Hraunflæðið ekki efnilegt

Íbúafundur var haldinn í Grindavík á fimmtudaginn vegna óvissu­stigsins sem lýst hef­ur verið vegna jarðskjálfta­hrinunar. 

Fannar var fundarstjóri og segir hann að fundurinn hafi gengið vel. 

„Við vorum með góða frummælendur sem að fóru yfir stöðuna eins og hún er og hvers má vænta og ég held það hafi náðst að svara svona flestu sem að fólk vildi fá svör við,“ segir hann en meðal þeirra sem tóku til máls var Magnús Tumi Guðmunds­son jarðeðlis­fræðing­ur.

Magnús Tumi sagði á fundinum að hraungos gæti valdið miklu tjóni á mannvirkjum.

Fannar segir að markmiðið með fundinum var að upplýsa íbúa um það sem hægt væri segja um skjálftahrinuna.

„En auðvitað veit enginn hvernig þetta þróast. Það sem að fyrir liggur er að þessi staður er ekki góður varðandi mögulegt hraunflæði í átt að Svartsengi og Bláa lóninu og þeim mannvirkjum sem eru þar,“ segir hann og nefnir að hraunflæðið gæti farið nær Grindavík en Fagradalsfjalli sem sé ekki efnilegt. 

„Þetta er vaktað vel og fylgst með málum. Við verðum bara að sjá hvernig þetta þróast.“

Fannar nefnir að jarðskjálftarnir séu ekki endilega það sem þurfi að óttast heldur sé það landrisið við Þorbjörn sem valdi mestum áhyggjum. 

„Þegar þetta fer saman þá hafa menn meiri var á sér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert