Sjúkdómur sem hét Bítlaæði

Pétur Jónasson gítarleikari stundar nú doktorsnám þar sem hann rannsakar …
Pétur Jónasson gítarleikari stundar nú doktorsnám þar sem hann rannsakar hvernig flækni í tónlist hefur áhrif á sjónræna athygli og sjónrænt vinnsluminni. mbl.is/Ásdís

Einn fallegan dag í maí lagði blaðamaður leið sína undir Eyjafjöll þar sem bærinn Steinar 3 kúrir undir háum fjöllum. Stórbrotin er náttúran á leiðinni, með fossum, jöklum, sandi, hrauni og tindum sem enn eru gráfölir af snjó. Veðrið þennan dag var eins íslenskt og hugsast getur því það skiptist á sól og rigning en þegar himnarnir opnuðust var líkt og hellt væri úr fötu. Pétur Jónasson, gítarleikari og nú einnig doktorsnemi, tekur á móti blaðamanni úti á hlaði, eins og menn gera í sveitum. Tíkin Nóra lætur sér fátt um gestinn finnast og er afar spök, enda hvolpafull og þreytt eftir því. Pétur býður í bæinn og hellir upp á kaffi og við fáum okkur sæti í borðstofunni þar sem er útsýni alla leið út á haf, að minnsta kosti á milli skúra. Þegar sólin brýst fram úr skýjunum má sjá Vestmannaeyjarnar standa tignarlega í röð við sjóndeildarhringinn. Ekki amalegt útsýni það!

Pétur og tíkin Nóra sem var örlagavaldur í því að …
Pétur og tíkin Nóra sem var örlagavaldur í því að þau keyptu sér hús úti í sveit.

„Við keyptum lögbýlið fyrir ári síðan eftir að hafa skoðað gríðarlega marga ólíka möguleika. Höfðum meðal annars fengið kauptilboð samþykkt í Skugganum, þó með fyrirvara um að leyfi fengist fyrir hundinn. Það strandaði á einum íbúa. Þá sáum við þetta ótrúlega hús hér og þetta land. Við Sigga dóttir mín renndum hingað í ofboðslega fallegu veðri og hlustuðum á drunurnar í briminu hér fyrir neðan. Staðurinn var baðaður í sól,“ segir hann. Þau hjón ákváðu að láta slag standa og kaupa lögbýlið um leið og eiginkonan hafði barið það augum.

 „Það má því segja að þetta sé allt hundinum að þakka, en hér er ótrúlega gott að vera,“ segir Pétur, en kona hans er Hrafnhildur Hagalín, leikskáld og listrænn stjórnandi hjá Þjóðleikhúsinu.

Bítlarnir og klassíkin

Pétur stimplaði sig inn sem klassískur gítarleikari strax um tvítugt og er hvergi nærri hættur. En hvernig hófst ástarsambandið við gítarinn?

„Það byrjaði með því að ég smitaðist af ákveðnum sjúkdómi sem hét Bítlaæði. Við eldri bræðurnir ólumst upp í Bandaríkjunum. Pabbi var í framhaldsnámi í læknisfræði og því aldrei heima. Ég man að mamma sagði eitt sinn að pabbi ætlaði þó að vera heima eitt kvöldið því við þyrftum að horfa á sjónvarpið, sem mér fannst skrítið. Við settumst svo niður eftir kvöldmat og kveiktum á The Ed Sullivan Show og þar voru Bítlarnir í beinni útsendingu. Ég man þetta eins og það hefði gerst í gær. Fjölskyldan sat þarna eiginlega lömuð því þetta var nokkuð sem enginn hafði séð áður,“ segir Pétur sem var fimm ára þetta örlagaríka kvöld.

„Ég spurði mömmu af hverju þessar stelpur væru í jakkafötum með bindi, en Bítlarnir voru með síðara hár en almennt tíðkaðist og sungu með háum röddum,“ segir hann. 

„Ég var stanslaust með Bítlana í öðru eyranu en í hinu klassíska tónlist því foreldrar mínir voru miklir tónlistarunnendur,“ segir Pétur og segir að á æskuárunum hafi því bæði Bítlarnir og klassíkin mótað hann mikið.

Stjáni saxófónn sló í gegn

„Ég og æskuvinur minn, Pétur Grétarsson, frábær músíkant og nú þulur hjá Ríkisútvarpinu, stofnuðum hljómsveit. Hann keypti trommusett og ég hjálpaði honum að keyra það í hjólbörum inn í bílskúr. Ég fékk svo lánaðan magnara og við byrjuðum að glamra. Við fengum síðar tvo aðra í grúppuna og úr varð hljómsveitin Tókýó,“ segir Pétur, en þeir vinirnir voru þá sextán ára.

„Sú hljómsveit breyttist svo í rokkhljómsveitina The Incredibles. Við klæddum okkur upp og settum á okkur lakkrísbindi og brilljantín í hárið. Við urðum svakalega vinsælir og tókum öll menntaskólaböllin. Það var stuð á böllunum hjá okkur en þarna lékum við „cover-lög“,“ segir Pétur, en hann var þá orðinn nemi í Menntaskólanum við Hamrahlíð.

„Ég kynntist svo fólki í Hamrahlíðinni og stofnaði aðra hljómsveit, Pjetur og úlfana. Hún er enn til. Við þykjumst ekki hafa tíma en segjum alltaf já ef við erum beðnir um að spila því okkur finnst það svo gaman,“ segir Pétur og hlær.

„Lagið Stjáni saxófónn varð mjög vinsælt, fór í fyrsta sæti og seldist eins og heitar lummur.“

Aleinn og mállaus í Mexíkó

Að loknu stúdentsprófi stóð Pétur á tímamótum og eins og aðrir nýstúdentar þurfti hann að taka ákvörðun um framtíð sína.

„Ég var orðinn stúdent og með einleikarapróf á gítar. Ég ætlaði alltaf að verða læknir,“ segir Pétur en segist fljótt hafa séð að hugurinn stefndi meira í átt að tónlist en læknisfræðinni.

„Mér bauðst að fara í klassískt gítarnám til heimsþekkts kennara í Mexíkó. Þar með stöðvaðist minn poppferill, um tíma alla vega,“ segir hann.

Nítján ára gamall hélt Pétur út í heim með ferðatösku í annarri og gítartösku í hinni. Mexíkóborg, sem þá var stærsta borg heims, beið unga piltsins sem vissi ekkert hvað hann var að fara út í.

„Það tók enginn á móti mér og ég var ekki með húsnæði og ég talaði ekki orð í spænsku. Eina sem ég vissi var heimilisfang skólans og það að ég ætti að hitta kennarann eftir mánuð,“ segir Pétur en á þessum tíma hafi ekki verið hægt að skipuleggja hlutina fyrirfram. Hann pantaði sér því hótelherbergi á flugvellinum og sendi foreldrum sínum símskeyti daginn eftir að hann væri kominn á leiðarenda.

Æfði sjö tíma á dag

Pétur byrjaði á spænskunámi og eftir tíu daga á hóteli komst hann í tæri við íslenska konu sem lánaði honum íbúð um hríð.

Mánuði síðar hitti Pétur svo læriföður sinn, gítarleikara frá Argentínu.

 „Hann var sannkallaður meistari og kenndi mér að vinna. Ég var enn blautur bakvið eyrun og hann spurði mig í fyrsta tímanum hvað ég gæti æft mig mikið. Hann stakk upp á fjórum tímum og ég spurði hvort hann ætti við á viku. Hann svaraði, „nei, fjóra tíma á dag!““ segir Pétur og hlær.
Pétur hitti svo meistarann einu sinni í viku en þess á milli æfði hann sig samviskusamlega.

„Fljótlega var ég farinn að æfa sjö, átta tíma á dag, fimm daga vikunnar,“ segir Pétur og segir að sér hafi fljótt verið spáð velgengni á tónlistarbrautinni.

Pétur hélt tvenna burtfarartónleika í Mexíkóborg og þá var komið að heimferð. Við heimkomuna hélt hann einleikstónleika og fékk glimrandi viðtökur. Aftur stóð Pétur á tímamótum.
„Ég var þá 21 árs og vissi ekkert hvað ég ætlaði að gera næst.“

Fór tvisvar í kringum hnöttinn

Ekki þurfti Pétur að hafa áhyggjur af framtíðinni því tilboðum tók að rigna inn, enda vakti þessi ungi klassíski gítarleikari mikla athygli. Pétur var ráðinn víða til að halda tónleika og lagði alla áherslu á að halda áfram að þróa sinn feril.

„Þetta vatt upp á sig og ég fór að fá boð um tónleikaferðir erlendis, alltaf einn með gítarinn. Ég starfaði í tíu, fimmtán ár eingöngu við tónleikahald úti um allan heim. Ég fór tvisvar í kringum hnöttinn,“ segir Pétur og segist þá hafa hlotið heiðursstyrk úr Sonning-sjóðnum danska sem gerði honum kleift að fara til Spánar til frekara náms hjá spænskum meistara í þrjú og hálft ár.
„Hann bjó í litlum bæ uppi í fjöllunum í Alicante-héraði sem hét Alcoy. Þar var gott að vera en ég gat aldrei setið kyrr og hélt því samtímis úti tónleikahaldinu.“

Pétur segist ekki hafa líkað kennsluaðferðirnar í Alcoy, því meistarinn vildi að hann léki alveg eins og hann.

„Hann gerði hlutina fallega en mig langaði ekki að spila eins og hann, heldur eins og ég sjálfur“ segir Pétur.

„Ég hélt svo áfram og var fljótlega farinn að spila 80 til 100 tónleika á ári,“ segir Pétur og segist hafa leikið mikið.

Vildi víkka sjóndeildarhringinn

Eftir meira en áratug á ferð og flugi um heiminn fannst Pétri kominn tími á að minnka ferðalögin, enda vinnan farin að taka sinn toll.

„Það var kominn tími á breytingar og við fjölskyldan fluttum til Spánar, fyrst Granada og síðar til Madrid. Ég flaug heim eina viku í mánuði og kenndi í Listaháskólanum. Það dugði til að lifa góðu lífi úti,“ segir Pétur.

Pétur unir sér vel í sveitinni undir Eyjafjöllum þar sem …
Pétur unir sér vel í sveitinni undir Eyjafjöllum þar sem fjölskyldan hefur keypt lögbýli. mbl.is/Ásdís

„Eftir heimkomuna fór ég að kenna, spila og stjórna Myrkum músíkdögum sem var skemmtilegt en áður en ég vissi af var ég aftur kominn í 300% vinnu. Það kom fljótt að því að mig langaði enn að breyta til og í þetta sinn ákvað ég að víkka sjóndeildarhringinn verulega. Hrafnhildur hafði rekið augun í frétt um nýja deild í Royal College of Music í London, besta tónlistarháskóla heims. Þar er kennt fag sem heitir Performance Science og er á meistarastigi. Aðferðir raunvísinda eru kenndar sem nýtast í rannsóknir á fyrirbæri sem nefnist á ensku „performance“ og sem enn vantar gott íslenskt nafn á,“ segir Pétur.

 „Hér er ekki átt við sviðsframkomu heldur sjálfan flutning tónlistar- og sviðslistafólks. Samlíkingar eru gerðar við vinnu skurðlækna, frammistöðu íþróttafólks, orrustuþotuflugmanna og meira að segja viðskiptafrömuða sem þurfa að kynna, eða „performera“, hugmyndir sínar á blaðamannafundum eða frammi fyrir alþjóð. Námið er því þverfaglegt, þótt auðvitað sé aðaláherslan enn á tónlistarfólki. Við rannsökum þá sem ná lengst á sínu sviði. Og þegar á toppinn er komið spyrjum við hvort hægt sé að fá fólk til að gera enn betur? Við skoðum sálfræðina á bak við og hvernig tónlist þróast hjá fólki í gegnum allt lífið, lífeðlisfræðina og síðast en ekki síst virkni hugans og heilans,“ segir Pétur og útskýrir að rannsóknasetrið kallast Centre for Performance Science og sé starfrækt í samvinnu við Imperial College London.

Mundu betur flókna lagið

„Þarna er verið að rannsaka allt frá því hvernig tónlist hefur áhrif út í samfélagið og yfir í hrein taugavísindi. Ég féll fljótt fyrir fyrirbærinu minni,“ segir Pétur.

„Ég valdi mér þetta efni, minni, vegna þess að ég hef alltaf átt auðvelt með að læra hluti utan að. Við músíkantar þurfum að vera fljót að læra. Þegar við spilum hefðbundin einleiksverk á tónleikum þarf að leika blaðalaust og flestir músíkantar eru sammála um að þeir spili betur eftir minni,“ segir Pétur og bætir við að hins vegar sé það mýta að of erfitt sé að muna flókin nútímatónverk.

Pétur brennur fyrir námi sínu en þar nær hann að …
Pétur brennur fyrir námi sínu en þar nær hann að sameina vísindin og listina.

„Í meistaraprófsrannsókinni bað ég þátttakendur um að læra utanbókar einfalt lítið lag og annað flóknara nútímalag, bæði sérstaklega samin fyrir rannsóknina. Þau spiluðu svo lögin blaðalaust eftir eina klukkustund. Í ljós kom að þau áttu betra með að muna flókna lagið,“ segir Pétur og segist hafa tvíeflst í náminu við þær niðurstöður, enda ekki það sem búist hefði verið við.

„Þá var ég hvattur til að fara í doktorsnám og er núna að rannsaka hvernig flækni í tónlist hefur áhrif á sjónræna athygli og sjónrænt vinnsluminni,“ segir Pétur sem vinnur rannsóknirnar undir handleiðslu Árna Kristjánssonar, prófessors í tilraunasálfræði við Háskóla Íslands og Ómars Inga Jóhannessonar, doktors í sálfræði.

Hver er þá rannsóknarspurningin?

„Þær eru nokkrar, en meginspurningin er einföld: hvaða áhrif hefur flækni á sjónræna athygli og vinnsluminni? Vísbendingar eru uppi um að því flóknara sem efnið er, því betur virki minnið. Ef við náum að sýna fram á, þótt ekki sé nema örlítið sterkari vísbendingar í þá átt, er hér verið að brjóta blað. Rannsóknir af þessu tagi, með tónlist sem efnivið, hafa enn ekki verið gerðar.“

Ég er ennþá músíkant

Þú ert semsagt listamaður sem er kominn í vísindin?

 „Já, en ég er ennþá músíkant. Fyrir sex árum var ég beðinn um að spila tvenna tónleika með ungri, framsækinni hljómsveit í London. Hún heitir Riot Ensemble og var farin að vekja athygli. Eftir seinni tónleikana var mér boðið að ganga til liðs við þau, sem ég gerði. Henni hefur vaxið fiskur um hrygg og er nú talin ein af fremstu nútímatónlistarhljómsveitum Evrópu. Við erum sextán fastir meðlimir – einn á hvert hljóðfæri,“ segir hann og segir þau hafa fengið þýsku Siemens-verðlaunin fyrir tveimur árum sem var mikill heiður.

„Við spilum tugi tónleika á ári, gerum upptökur og komum fram á tónlistarhátíðum. Þarna eru bestu spilararnir í bransanum; það er ævintýralegt að spila með þeim. Algjör lúxus, algjör draumur,“ segir Pétur og segir mörg af þekktustu tónskáldum samtímans nú sækjast eftir að semja verk fyrir hópinn.

Hér má sjá Pétur taka upp tónlist með Riot Ensemble, …
Hér má sjá Pétur taka upp tónlist með Riot Ensemble, frægri nútímatónlistarhljómsveit sem er að gera það gott.

„Mörg þeirra kjósa líka að skrifa fyrir rafgítar en að vera klassískur gítarleikari, sem getur líka leikið flókna nútímatónlist á rafgítar, veitir manni ákveðna sérstöðu, segir Pétur.

„Eitt verkanna er eftir austurríska tónskáldið Georg Friedrich Haas, sjötíu mínútna langt verk fyrir tíu hljóðfæraleikara, leikið í algjöru myrkri. Það er allt svart, við sjáum ekkert, ekki einu sinni hendurnar á okkur. Áhorfendur sjá ekki neitt heldur. Við þurfum því að kunna allt utan að!“ segir hann en Pétur er einmitt að spila það verk í kvöld í München.

„Þarna hefur maður bara heyrn og snertingu við hljóðfærið. Og það góða er að ég get nýtt þessa vinnu í rannsóknirnar. Ég er alltaf að vinna með þessa flóknu nýju músík þannig að þetta vinnur allt fullkomlega saman.“

Ítarlegt viðtal er við Pétur í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert