Undirbúa PCR-skimanir fyrir apabólu

PCR-aðferðin er landsmönnum góðkunn eftir Covid-19.
PCR-aðferðin er landsmönnum góðkunn eftir Covid-19. Ljósmynd/Landspítali

Hægt verður að beita PCR-skimunum til þess að greina apabólu hér á landi eftir tvær til þrjár vikur, að sögn Guðrúnar Svanborgar Hauksdóttur, yfirlæknis á sýkla- og veirufræðideild Landspítala.

Landspítalinn býr yfir prófum sem geta greint veirur skyldar apabóluveirunni og veitt þar með sterkan grun um tilvist sjúkdómsins, aftur á móti þyrfti að senda slík sýni til Svíþjóðar til staðfestingar, eins og staðan er núna. 

Til þess að ráða bót á því hafa hvarfaefni verið pöntuð til landsins. Þau ættu að berast á næstu tveimur til þremur vikum, og verður þá hægt að greina veiruna hérlendis samdægurs, að sögn Guðrúnar.

Mikil útbreiðsla ólíkleg

Guðrún segir engar vísbendingar um að apabóla sé komin til Íslands. Í ljósi þess að hún hafi verið að greinast í nágrannalöndunum, sé þó ekki ósennilegt að hún muni berast hingað. 

Aðspurð hvort PCR sýnatökur verði opnar almenningi eða úrræði sem læknir getur óskað eftir að nýta ef grunur vaknar um að sjúklingur sé með apabólu, vísar Guðrún á sóttvarnalækni. 

Henni þykir þó líklegt að ákvörðun um það ráðist af útbreiðslunni. Sýkla- og veirufræðideild muni greina þau sýni sem tekin verða, óháð því hvernig staðið verði að sýnatökum.

„Það er ólíklegt að þetta nái mikilli útbreiðslu hér á landi. Fólk þarf að vera í mjög náinni snertingu til þess að smitast.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert