Áfangaheimilinu lokað ef ekki er gripið inn í

Dyngjan. Þar geta 14 konur dvalið á hverjum tíma.
Dyngjan. Þar geta 14 konur dvalið á hverjum tíma.

Útlit er fyrir að loka þurfi áfangaheimilinu Dyngjunni um mánaðamótin ef ekkert verður að gert en heimilið tók til starfa árið 1988 og hefur starfað óslitið síðan. Dyngjan er eina áfangaheimilið á landinu sem er einungis ætlað konum en þar mega börn kvennanna einnig dvelja. Að jafnaði koma þangað á bilinu 24 til 40 konur á ári og er meðalfjöldi dvalardaga þeirra 90 til 180 dagar. Heimilið á nú í miklum fjárhagserfiðleikum eftir kórónuveirufaraldurinn og var því neitað um styrk frá félagsmálaráðuneytinu.

Anna Margrét Kornelíusdóttir, formaður stjórnar Dyngjunnar, tekur fram í samtali við mbl.is að ákvörðun um lokun hafi ekki enn verið tekin og að stjórnin eigi bókaðan fund við Reykjavíkurborg í vikunni. Borgin hefur stutt „myndarlega“ við starfsemi Dyngjunnar í gegnum árin, að sögn Önnu Margrétar, og á borgin m.a. húsnæði Dyngjunnar.

Máttu ekki við því að missa styrkinn

Á Dyngjunni er konum sem koma úr áfengis- og vímuefnameðferð veittur stuðningur til að takast á við heilbrigt líferni. Þar geta fjórtán konur dvalið hverju sinni.

„Dyngjan stendur frammi fyrir miklum fjárhagserfiðleikum. Undanfarin ár höfum við notið góðs af styrk til að mynda frá félagsmálaráðuneytinu. Covid hefur haft áhrif á reksturinn hjá okkur eins og hjá öðrum þar sem konurnar hafa bæði verið færri í húsi og borðað allan sinn mat heima vegna samkomutakmarkana. Innifalinn í leigunni er allur matur. Við sjáum fram á að þurfa að loka ef ekki kemur að eitthvað utanaðkomandi fjármagn,“ segir Anna Margrét.

Enginn styrkur barst frá félagsmálaráðuneytinu í ár.  

„Við höfum reitt okkur á styrki að hluta til bæði frá sveitarfélögum og ríki og að þessu sinni sá ráðherra sér ekki fært að styrkja okkur. Styrkurinn hefur ábyggilega farið á einhvern annan góðan stað en reksturinn hefur verið það viðkvæmur að við máttum ekki við því að missa þessa styrki,“ segir Anna Margrét.

Spurð um ástæðurnar sem gefnar voru fyrir höfnun styrkveitingar segir hún að það hafi ekki verið formgalli á umsókn Dyngjunnar um styrk.

„Útskýringin var sú að margar umsóknir bárust og þó að við hefðum notið styrkja í gegnum tíðina gætum við ekki litið svo á að við værum áskrifendur að styrkjum frá ráðuneytinu.“

Staðan alvarleg og dapurleg

Ef þið neyðist til þess að loka hlýtur það að hafa áhrif á þær konur sem sækja til ykkar aðstoð?

„Já, til okkar koma konur sem eru að koma úr meðferðarúrræðum þannig að við höfum verið í samskiptum við aðra aðila sem eru að reka áfangaheimili á höfuðborgarsvæðinu og erum að reyna að gera ráðstafanir.“

Dyngjukonur ætla að gera hvað þær geta til þess að bjarga málunum fyrir mánaðamót en til þess þurfa þær aðstoð.

„Við eigum fund með Reykjavíkurborg í vikunni en við erum að reyna að gera allt sem í okkar valdi stendur til þess að koma í veg fyrir að það þurfi að loka en staðan er mjög alvarleg og dapurleg,“ segir Anna Margrét.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert