Efnin framleidd á Íslandi

Tíu voru handteknir fyrir helgi og sitja fimm þeirra enn …
Tíu voru handteknir fyrir helgi og sitja fimm þeirra enn í varðhaldi. Lagt var hald á 40 kg af maríjúana sem framleitt var hér á landi og naut lögreglan aðstoðar sérsveitarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rannsókn fíkniefnamáls hefur leitt til þess að tíu voru handteknir og sitja þar af fimm enn í gæsluvarðhaldi. Rannsóknin hefur staðið yfir í þó nokkurn tíma en farið var í umfangsmiklar aðgerðir fyrir síðustu helgi. Erlendir glæpahópar koma ekki við sögu í málinu. 

Þetta staðfestir Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, við mbl.is.

Óljóst hvar peningaþvætti átti sér stað

Lagt var hald á á um 40 kíló af maríjúana og leitað á allmörgum stöðum, bæði í húsum og ökutækjum. Um var að ræða aðgerðir gegn framleiðslu, sölu og dreifingu fíkniefna en einnig peningaþvættis, að því er fram kemur í tilkynningu sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér fyrr í dag.

Aðspurður segir Margeir að efnin hafi verið framleidd á Íslandi. Kveðst Margeir ekki geta tjáð sig um hvar peningaþvættið átti sér stað og hvort efnin hafi verið framleidd á Suðurlandi, að því er fram kemur í skriflegu svari til mbl.is. Rannsóknin hafi staðið yfir í þó nokkurn tíma og standi enn yfir.

Nokkrir tugir lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum og naut embættið aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurlandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert