Hvað er apabóla?

Apabóla hefur verið að skjóta upp kollinum í Bandaríkjunum og …
Apabóla hefur verið að skjóta upp kollinum í Bandaríkjunum og Evrópu.

Búist er við að heilbrigðisyfirvöld í Bretlandi tilkynni í dag um fleiri tilfelli apabólu í landinu. Breska heilsuöryggisstofnunin gaf það út í gær að sjúkdómurinn væri tekinn að breiðast út innan landsins. Öll tilfellin tengist þar með ekki ferðalögum til Afríku, þar sem apabóla er upprunnin.

Tilfelli sjúkdómsins hafa nú verið greind í að minnsta kosti fjórtán löndum, í Norður-Ameríku og Evrópu, frá því snemma í maí.

Flestir sem smitast af apabólu ná sér innan nokkurra vikna og sjúkdómurinn hefur aðeins reynst banvænn í sjaldgæfum tilvikum.

Þúsundir hafa smitast af apabólu í Mið- og Vestur-Afríku á undanförnum árum. Hún hefur þó til þessa verið sjaldgæf í okkar heimshluta.

En hvað er apabóla?

Frá blómasýningu í Lundúnum í morgun. Búist er við að …
Frá blómasýningu í Lundúnum í morgun. Búist er við að fleiri tilfelli verði tilkynnt í landinu í dag. AFP

Fyrsta tilfellið árið 1970

Apabóla er veira sem smitast frá dýrum í menn, þar sem einkennum svipar mjög til bólusóttar án þess þó að leggjast jafn þungt á líkamann.

Í Afríku hefur apabóla greinst í fjölda dýra, þar á meðal í nokkrum íkornategundum, gambískum pokarottum og svefnmúsum, auk nokkurra tegunda apa. 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur sagt að smit á milli manna sé takmarkað.

Einkenni sjúkdómsins í mönnum fela í sér sár á húðinni, útbrot í andliti, lófum og á iljum, hrúður, hita, hroll og vöðvaverki.

Fyrsta staðfesta tilfelli apabólu í manni greindist árið 1970 í Saír, þar sem nú er Austur-Kongó, í níu ára dreng á svæði þar sem bólusótt hafði verið útrýmt tveimur árum áður.

Síðan þá hafa tilfelli greinst í ellefu Afríkuríkjum; Benín, Kamerún, Mið-Afríkulýðveldinu, Austur-Kongó, Vestur-Kongó, Gabon, Fílabeinsströndinni, Líberíu, Nígeríu, Síerra Leóne og Suður-Súdan.

Vorið 2003 greindust fyrstu tilfellin í Bandaríkjunum og markaði það fyrsta skiptið sem apabóla skaut upp kollinum utan Afríku.

Hvernig smitast apabóla?

Sjúkdómurinn getur smitast frá dýrum í menn, með snertingu fólks við blóð, líkamsvessa eða sár sýktra dýra.

Á milli manna getur smit átt sér stað með nánum samskiptum í gegnum öndunarúða, snertingu við sár sýktrar manneskju eða við hluti sem nýlega hafa verið smitmengaðir.

Smit í gegnum öndunarfæri þarfnast alla jafna langtíma samskipta, augliti til auglitis. Heilbrigðisstarfsfólk er því í frekari hættu, auk annarra þeirra sem eru lengi í návígi við smitaðan einstakling.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur gefið það út að hluti tilfellanna í Bretlandi hafi komið upp á meðal samkynhneigðra karla. Aðalheilbrigðisráðgjafi bresku heilsuöryggisstofnunarinnar, dr. Susan Hopkins, tjáði BBC í gær að smit í bresku samfélagi hefði aðallega orðið í þéttbýli. 

„Og við erum fyrst og fremst að sjá það í einstaklingum sem skilgreina sig sem samkynhneigða eða tvíkynhneigða, eða í öðrum körlum sem stunda kynlíf með körlum,“ sagði hún.

En sérfræðingar hafa varað við því að of snemmt sé að draga ályktanir af þessu. Frekari gagna sé þörf.

Apa­ból­an er sögð munu ólíklega ná mik­illi út­breiðslu hér á …
Apa­ból­an er sögð munu ólíklega ná mik­illi út­breiðslu hér á landi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hversu alvarlegur er sjúkdómurinn?

Yfirleitt hjaðnar apabólu af sjálfu sér, þar sem einkenna er vart í um tvær til fjórar vikur.

Alvarleg tilfelli eru algengari á meðal barna, en alvarleikinn ræðst af því hversu útsettur sjúklingurinn var fyrir veirunni, heilsu hans og hvers kyns kvillar það eru sem fylgja smitinu.

Dánartíðni smitaðra hefur verið mismunandi en hún hefur numið á milli 0-10% af öllum greindum tilfellum.

„Það hefur verið reiknað út að Vestur-Afríkuafbrigðið, sem bresku tilfellin eru af, hefur dánartíðni upp á um eitt prósent,“ hefur AFP-fréttaveitan eftir Simon Clarke, aðstoðarprófessor í frumulíffræði við Reading-háskóla.

„Það er einnig til afbrigði á Kongó-svæðinu sem getur reynst banvænt í allt að tíu prósent tilfella, en bresku tilfellin eru ekki af því afbrigði.“

Bólusetningu hætt á áttunda áratugnum

Engin sérstök meðferð er til við sjúkdómnum en bólusetning við bólusótt virðist hafa komið í veg fyrir apabólusmit í um 85% tilfella.

Bóluefni við bólusótt er þó af skornum skammti, enda sjúkdómsins ekki orðið vart í rúma fjóra áratugi. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt að nægar birgðir séu þó til vestanhafs.

Árið 1979 ályktaði alþjóðaheilbrigðisþingið að bólusótt hefði verið útrýmt í heiminum. Í kjölfarið var bólusetningu alfarið hætt hér á landi, en verulega hafði dregið úr henni á árunum þar áður.

Bólusótt er sá smitsjúkdómur sem trúlega hefur valdið hvað mestum búsifjum á Íslandi, að því er fram kemur í skýrslu landlæknis frá árinu 2016, um almennar bólusetningar barna á Íslandi.

Á grafinu hér fyrir neðan má sjá hvernig bólusetning gegn bólusótt fjaraði út í samanburði við aðrar algengar barnabólusetningar.

Hef­ur ekki greinst hér á landi

Enn hef­ur apa­bóla ekki greinst á Íslandi en í sam­tali við mbl.is í gær sagði Guðrún Svan­borg Hauks­dótt­ir, yf­ir­lækn­ir sýkla- og veiru­fræðideild­ar Land­spít­ala, ekki ósenni­legt að hún muni ber­ast hingað í ljósi þess að ból­an hef­ur verið að grein­ast í ná­granna­lönd­un­um.

Eft­ir um tvær til þrjár vik­ur verður hægt að beita skimun­um til þess að greina hana hér á landi.

Guðrún sagði við mbl.is í gær ólík­legt að apa­ból­an muni ná mik­illi út­breiðslu hér á landi.

„Fólk þarf að vera í mjög ná­inni snert­ingu til þess að smit­ast.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert