„Ætlar forsætisráðherra að beita sér fyrir því að það fólk sem hér hefur dvalið, unnið og fest rætur í talsverðan tíma, en á nú að senda til Grikklands, fái dvalarleyfi?“ spurði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar á Alþingi, og beindi spurningu sinni til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Logi vitnaði í orð Silju Báru Ómarsdóttur, nýkjörins formanns Rauða krossins, sem segir að hér sé verið að taka upp útlendingastefnu sem verði með þeim harðari í Evrópu og verið sé að mismuna flóttafólki eftir uppruna.
„Við sáum þessa stefnu í síðustu viku, þegar fram kom hjá hæstvirtum dómsmálaráðherra að til standi að vísa hátt í 300 manns til Grikklands. Þetta gerist á sama tíma og þörf fyrir vinnufúsar hendur hefur aukist hér á landi vegna aukins ferðamannastraums. Okkur vantar fólk og ríkisstjórnin hyggst senda úr landi 300 manns,“ sagði Logi.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði það ekki rétt að Ísland stefndi í það að vera með hörðustu innflytjenda- og flóttafólksstefnu í Evrópu.
„Ef við berum okkur saman til að mynda við Norðurlönd hefur Ísland verið með mun frjálslyndari stefnu, þar sem aðilar í þessari stöðu eru geymdir í lokuðum búðum áður en þeir eru sendir úr landi. Við heyrum núna fregnir frá Danmörku, þar sem Danir hafa í huga að útvista þjónustu sinni við fólk með alþjóðlega vernd til Rúanda, sem er sama fyrirkomulag og Bretar hafa kynnt. Þannig að ég hlýt að andmæla því þegar háttvirtur þingmaður heldur þessu fram í sinni fyrirspurn,“ sagði Katrín.
Forsætisráðherra sagðist leggja áherslu á að horft sé til þess að sá hópur sem vísa á úr landi sé ekki einsleitur hópur; aðstæður fólk væru mismunandi.
Forsætisráðherra benti á að samkvæmt hennar upplýsingum hefði meirihluti þeirra sem vísa ætti úr landi fengið vernd í öðru Evrópuríki, þar af 80 í Grikklandi.
„Ég hef óskað eftir upplýsingum um það hvort önnur Evrópuríki sendi flóttafólk til Grikklands miðað við aðstæður þar, því að það er eitt af því sem er bent á, að aðstæður þar séu ekki fullnægjandi, og ég hef ekki fengið svör við því. Mér finnst skipta miklu máli að við kynnum okkur þau mál til hlítar áður en slíkar ákvarðanir eru teknar,“ sagði Katrín.