Perla Ösp ráðin framkvæmdastjóri Eflingar

Perla Ösp Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Eflingar.
Perla Ösp Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Eflingar. Ljósmynd/Landsbankinn

Perla Ösp Ásgeirsdóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri Eflingar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Perla starfaði í 11 ár sem framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Landsbankanum. Hún lét af störfum hjá Landsbankanum í maí í fyrra. Þar áður starfaði hún sem greinandi hjá Seðlabankanum og starfsmaður fyrir rannsóknarnefnd Alþingis sem rannsakaði orsakir fjármálahrunsins 2008.

Fram kemur í tilkynningunni, sem Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sendir að stjórn félagsins hafi samþykkt ráðninguna. Perla er með B.Sc.-gráðu í viðskiptafræði og M.Sc.-gráðu í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík.

Perla mun hefja störf um mánaðamótin, en fram kemur í tilkynningunni að veigamikil verkefni bíði hennar. Meðal annars stefnumótun og eftirfylgni í tengslum við skipulagsbreytingar sem Efling hóf í apríl síðastliðnum.

 „Ég lýsi mikilli ánægju með þessa ráðningu. Við leituðum að framkvæmdastjóra sem getur ábyrgst góða stjórnarhætti, leitt vandaða áætlunargerð um reksturinn og átt gott samstarf við stjórn og starfsmenn. Það er ljóst að Perla Ösp hefur afburðafærni og reynslu í þessum atriðum,“ er haft eftir Sólveigu í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka