Rostungum við Ísland eru gerð góð skil á nýrri sýningu í Selasetri Íslands á Hvammstanga sem opnuð var í síðustu viku. Nokkrir tugir slíkra dýra hafa sést við strendur landsins á síðustu áratugum; flækingar sem alltaf vekja mikla athygli. Nýlegar rannsóknir vísindamanna sýna þó að hér við land lifði sérstakur og sjálfstæður íslenskur rostungsstofn í árþúsundir sem varð útdauður á fyrstu öldunum eftir landnám. Frá þeim veruleika er greint á rostungasýningunni sem áður var í Perlunni í Reykjavík.
„Forsvarsmenn Náttúruminjasafns Íslands buðu okkur að taka við þessari sérsýningu þess og setja upp hér. Þessi sýning var í raun alltaf hugsuð og hönnuð með það fyrir augum að verða flutt út á land. Þegar okkur bauðst þessi sýning þáðum við slíkt með þökkum, enda er þetta frábær viðbót við starfsemina hér,“ segir Páll L. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Selaseturs Íslands, í samtali við Morgunblaðið.