Sambandsleysi við Evrópu tífalt ólíklegra

Lagning nýja sæstrengsins Íris hófst við Hafnarvík við Þorlákshöfn í …
Lagning nýja sæstrengsins Íris hófst við Hafnarvík við Þorlákshöfn í morgun. Kaplaskipið Durable og starfsfólk á vegum bandarískra strengjaframleiðandans SubCom sér um lagningu nýja sæstrengsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorvarður Sveinsson, framkvæmdastjóri Farice, segir aðalástæðuna fyrir lagningu nýs sæstrengs til Írlands vera þá, að auka fjarskiptaöryggi Íslands. Bendir Þorvarður á að núna höfum við aðeins tvo sæstrengi, sem tengja Ísland við Evrópu. Að sögn Þorvarðar eykst öryggið tífalt, út frá líkindafræðilegum útreikningi, með því að leggja þriðja strenginn. 

Eins og greint hefur verið frá, hófst lagning nýs sæstrengs á milli Íslands og Írlands í morgun og hefur sá strengur fengið nafnið Íris. Fyrri tveir strengirnir heita Farice og Danice en Farice liggur til Skotlands með tengingu í Færeyjum og Danice liggur til Danmerkur.

Er því markmiðið með lagningu sæstrengsins, að sögn Þorvarðar, að minnka líkurnar á að það verði útfall. Bendir Þorvarður þá á að hér búum við á eyju þar sem náttúruöflin geta haft sitt að segja.

„Sæstrengirnir liggja auðvitað í sjó og það geta alls konar hlutir gerst. Eins og við þekkjum er Ísland ein stór náttúruvá. Hér eru alltaf einhver eldgos eða jarðskjálftar," segir Þorvarður og bætir við að ef eitthvað slíkt skyldi gerast á meðan bilun á sér stað á öðrum hvorum sæstrengnum yrði Ísland sambandslaust við Evrópu. 

Bendir Þorvarður á að bróðurparturinn af gagnaflutningi frá Íslandi til útlanda fer til Evrópu í gegnum strengina tvo Farice og Danice.

Þorvarður Sveinsson, framkvæmdastjóri Farice.
Þorvarður Sveinsson, framkvæmdastjóri Farice. Ljósmynd/Aðsend

50 milljónir evra

Lagning sæstrengsins kostar um 50 milljónir evra eða jafnvirði rétt undir sjö milljörðum íslenskra króna. Ríkissjóður fjármagnar verkefnið með hlutafjáraukningu til Farice.

Að sögn Þorvarðar er um öflugri streng að ræða heldur en hina fyrri tvo til Evrópu, þá Farice og Danice. Getur nýi sæstrengurinn borið töluvert meira af gögnum.

Þetta mun hafa jákvæð áhrif á rekstur gagnavera hérlendis. „Þar sem við erum að leggja sæstrenginn til Írlands, mun það bæta gæði tenginga á milli Íslands og Bretlandseyja. Maður hefur því heyrt frá íslenskum gagnaverum sem eru mjög spennt fyrir þessari tengingu og sjá viðskiptafæri í henni,“ segir Þorvarður.

Þorvarður segir þá tækifærin felast í því að nýta þau gæði sem Ísland býður upp á, þ.e. að nýta hreina og græna orku og svalt loftslag sem hentar vel til að vinna gögn. Tekur Þorvarður þó fram að þetta sé aðeins aukaafurð en ekki ástæðan fyrir því að sæstrengurinn sé lagður. 

Aðspurður hvaða þýðingu þessi sæstrengur muni hafa fyrir hinn hefðbundna Íslending, segir Þorvarður að hinn almenni netnotandi muni ekki finna mikið fyrir breytingum, þó lagningin minnki líkur á sambandsleysi við Evrópu.

Strengurinn verður lagður í sumar og segir Þorvarður að hann verði tilbúinn í ársbyrjun 2023.

Grafa bíður átekta í Þorlákshöfn í morgun.
Grafa bíður átekta í Þorlákshöfn í morgun. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka