Kristín Helga Gísladóttir, framkvæmdastjóri Garðheima, segir búið að vera brjálað að gera hjá þeim síðan sólin fór að gera vart við sig, sérstaklega í blíðviðrinu um helgina. Að hennar sögn er sólin besta auglýsingin.
„Við erum í þannig viðskiptum að við erum mjög háð veðri. Þannig að þegar sumarið kemur svona snemma eins og núna, er fólk miklu meira úti í garði hjá sér. Svo það er búið að vera rosalega mikið að gera hjá okkur, sérstaklega núna um helgina,“ segir Kristín Helga.
Hún segir söluna fyrr í þessum mánuði hafa verið svipaða og árin á undan en að helgin sem var að líða hafi verið algjör sprenging. Segir hún alla vera að kaupa sér eitthvað fyrir garðinn og þá sérstaklega sumarblóm. Að hennar sögn á svona sala sér vanalega ekki stað fyrr en í júní.
Bætir Kristín við að sólin sé besta auglýsingin fyrir þau og að hún sé mjög kærkomin fyrir fólk í garðrækt.
Kristín segist sjá mikla breytingu á því hvað fólk kaupir fyrir sumarið. Bendir hún að áhugi meðal Íslendinga á ávaxtatrjáaræktun og berjaræktun hafi aukist til muna. Jarðarberjaplöntur og hindberjaplöntur hafi selst virkilega vel.
„Fólk er farið að sjá að það er svo margt sem er hægt að rækta á Íslandi, sérstaklega þegar við fáum góð sumur. Það er ákveðin vitundarvakning að eiga sér stað.“