Tækifæri til að kaupa þýfi á löglegan hátt

Salurinn þar sem þýfið og uppboðshlutirnir eru geymdir.
Salurinn þar sem þýfið og uppboðshlutirnir eru geymdir. Ljósmynd/Aðsend

Netuppboð óskilamuna hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hófst klukkan fjögur í dag, en þar mun lögreglan selja ýmsa muni sem dagað hefur uppi í hennar vörslu síðastliðið ár. 

Uppboðið er auglýst sem reiðhjólauppboð en þó er ýmislegt fleira en hjól þar til sölu. Ýmis verkfæri verða til að mynda boðin upp og fleiri munir. 

Að sögn Halldórs Arnars, verslunarstjóra Vöku sem hefur umsjón með uppboðinu, er um að ræða óskilamuni í vörslu lögreglunnar sem ekki hefur verið vitjað, en munirnir hafa endað hjá lögreglu á ýmsan hátt. Í sumum tilfellum er um að ræða þýfi en einnig eru þetta hlutir sem hafa verið skildir eftir á víðavangi.

Bendir Halldór á að hér sé eina tækifærið til að kaupa sér þýfi á löglegan hátt.

Fer uppboðið fram á vegum Vöku, en það hófst klukkan 16 og stendur út sunnudaginn 29. maí. Uppboðið er haldið á vefsíðu Vöku. Þar er hægt að skoða munina og bjóða í þá. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert