Logi Sigurðarson
Jörð heldur áfram að skjálfa á Reykjanesskaga. Tveir stórir skjálftar riðu yfir í gær, báðir yfir þrír að stærð. Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi að þrátt fyrir þessa stóru skjálfta hafi skjálftavirknin á svæðinu minnkað töluvert. Á föstudag mældust um 900 jarðskjálftar á svæðinu, en aðeins um 500 á laugardag.
Aðspurð sagði Sigríður að hegðun skjálftahrina væri ófyrirsjáanleg og þótt skjálftavirkni hefði minnkað þýddi það ekki að hún gæti ekki aukist aftur.
„Eins og staðan er núna er enginn gosórói eða merki um hann. En eins og við þekkjum getur þetta breyst hratt,“ sagði Sigríður.