Tómas Arnar Þorláksson
Sæstrengur sem hafið er að leggja úr Þorlákshöfn ætti að komast óskemmdur til Írlands, svo lengi sem ofsaveður eða hvirfilbylur skellur ekki á, á meðan för skipsins Durable yfir Atlantshafið með sæstrenginn stendur yfir. Verkefnið hefur í heild sinni kostað ríkissjóð 50 milljónir evra eða jafnvirði um sjö milljarða íslenskra króna. Verkefnið hófst í gær eins og mbl.is greindi frá.
Robert Pagliaro, verkefnastjóri Subcom, sem vinnur að verkefninu í samstarfi við Farice, tók fram á kynningarfundi verkefnisins í dag að vinnan hefði byrjað vel og að þeir hefðu ekki getað verið heppnari með veður í gær.
Þó bendir hann á að bókstaflega sé enn þá langt í land. Sæstrengurinn þarf að fara með skipinu Durable yfir Atlantshafið til Írlands, þar sem hann verður tengdur í landstreng. Ferðin yfir Atlantshafið tekur um það bil mánuð.
Er því ýmislegt sem getur komið upp á en Pagliaro segir að mesta hættan felist í veðrinu. „Við getum ekki séð fyrir hvernig veðrið verður. Þetta er ástæðan fyrir því að við völdum að gera þetta að sumarlagi. Þetta ætti að blessast, svo lengi sem það verði ekki óvæntur hvirfilbylur,“ segir Pagliaro.
Aðspurður segir Pagliaro að vinnan hafi gengið vel til þessa og að það hafi verið einstaklega ánægjulegt að vinna með Farice og þeim Íslendingum sem komu að þessu verkefni. Pagliaro reiknar með að fjöldi þeirra sem komi að verkefninu verði mörg hundruð manns.