Aðalvalkostur Vegagerðarinnar í umhverfismatsskýrslu vegna Fjarðarheiðarganga er að vegurinn úr göngunum fari suður fyrir þéttbýlið á Egilsstöðum en hvorki í gegnum það né norður fyrir. Sömuleiðis er aðalvalkostur við tengingu Seyðisfjarðarmegin ný veglína, sem hefur það í för með sér að færa þarf golfvöll Seyðfirðinga.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Vegagerðin hefur lagt fram umhverfismatsskýrslu vegna framkvæmda við Fjarðarheiðargöng, að loknum athugunum í umhverfismati. Allir geta veitt umsögn um efni skýrslunnar en það þarf að gera fyrir 5. júlí.
Fjarðarheiðargöng hafa lengi verið í umræðunni og eru sá kostur sem næstur er á dagskrá. Göngin verða 13,3 km að lengd og stofnkostnaður er áætlaður 41 milljarður, miðað við verðlag í desember sl. Auki þess þarf að leggja vegi beggja vegna og kostar það að minnsta kosti 4,3 milljarða til viðbótar, eftir því hvaða leið verður farin.