Íbúðir ekki fjárfestingarkostur fyrir ávöxtun

Kristrún Frostadóttir.
Kristrún Frostadóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Frá árinu 2005 hafa 35.000 nýjar íbúðir verið byggðar. Á sama tíma hefur íbúðum sem eru í eigu einstaklinga sem eiga tvær eða fleiri íbúðir og fyrirtækja fjölgað um 23.000,“ sagði Kristrún Frostadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag.

Hún sagði að húsnæðismarkaðurinn ætti ekki að vera fjárfestingarmarkaður. Eitt væri að fjárfesta í eigin húsnæði til að eiga samastað og búa við húsnæðisöryggi en það væri annað mál þegar íbúðarkaup væri orðin fjárfestingarkostur fyrir ávöxtun.

67% af viðbótarframboði á húsnæðismarkaði hafa ratað til einstaklinga sem ætla ekki að búa sjálfir í íbúðinni sem og til fyrirtækja. Þessar íbúðir áttu að vera heimili fólks. Þarna býr vissulega fólk í dag á almennum leigumarkaði en með takmarkaða vernd sem gerir því erfitt fyrir að kalla þetta öruggt heimili,“ sagði Kristrún.

Hún benti á að víða í Evrópu væri leigumarkaður sem tæki mið af eins konar þjóðarsátt um að húsnæði ætti ekki að vera uppspretta ávöxtunar, heldur heimili fólks. Hér þurfi slílka þjóðarsátt.

Það þarf alvörubreytingar sem treysta stöðu leigjenda, viðkvæmra hópa og ungs fólks með beinum hætti og meiri hluta fólks í þessu landi með óbeinum hætti, með því að draga úr verðþrýstingi á markaðnum sem lekur yfir í allt verðlag. Nær væri að fólk með aukafjármagn fjárfesti í einhverju sem raunverulega skapar hér verðmæti og atvinnutækifæri og heimilin væru látin í friði,“ sagði Kristrún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert