Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, oddviti Viðreisnar, segist fara inn meirihlutaviðræður með opnum hug með kjarnastefnu Viðreisnar að leiðarljósi, en hún sé jafnframt til í breytingar.
„Ég held að við séum á þeim stað að það er nýtt upphaf, það er nýr meirihluti. Hann er á nýjum stað, hann er miklu meira á miðjunni heldur en við vorum áður,“ segir Þórdís í samtali við mbl.is eftir að tilkynnt var að Framsókn, Samfylking, Píratar og Viðreisn ætluð að hefja viðræður um myndun nýs meirihluta.
Spurð hvort það sé henni að þakka að þessir flokkar séu að hefja viðræður eftir að hún útilokaði samstarf við Sjálfstæðisflokkinn segist Þórdís ekki vilja úttala sig um það. „Mér fannst kominn tími til að taka af skarið, vika er langur tími í pólitík,“ segir Þórdís, en rúm vika er síðan sveitastjórnarkosningar fóru fram.
Hún segir það hafa verið klókt af Framsókn að taka sér tíma til að fara yfir stöðuna í ljósi þess að þau séu ný. Það sé mikilvægt að fólk kynnist, tali saman og átti sig á hvort það sé málefnalegur grundvöllur.
„Ég er bara mjög glöð yfir því að við séum komin á þann stað núna, en við skulum líka ekki fara fram úr okkur. Við erum bara að byrja, eins og fram kom á þessum blaðamannafundi þá erum við ekkert búin að tala saman sem hópur og eigum alveg eftir að taka skref fyrir skref í málefnunum.“
Verði meirihluti þessara fjögurra flokka myndaður mun meirihlutinn hafa þrettán borgarfulltrúa, en aðeins þarf tólf fulltrúa til að mynda meirihluta. Framsókn, Samfylkingin og Píratar gætu því myndað meirihluta án Viðreisnar. Þórdís er þó nokkuð örugg með að hún verði hluti af nýjum meirihluta.
„Já ég er það. Í fyrsta lagi þá sýnir þessi hópur með okkur innanborðs ákveðna pólitíska breidd. Við erum oft mjög föst í því að við þurfum lægsta samnefnara, sem mér finnst mjög merkilegt, við eigum einmitt að reyna að hafa breiddina og koma sem flestum sjónarhornum að.“
Þórdís segir það hafa verið áhrifaríkt í erfiðum málum, enda komi alltaf upp mál á kjörtímabilinu sem ekki sé hægt að sjá fyrir, eins og alheimskreppa, stríð og fleira. Þá sé mikilvægt að hafa góða breidd í hópnum og að fólk geti unnið vel saman.
„Ég hef fulla trú á því að aðkoma Viðreisnar sé góð í þessu samhengi og traust.“
Hvað helstu málefnakröfur varðar segir Þórdís það að vera með einhverjar kröfur aldrei vera góða leið til hefja samningaviðræður. „Við erum bara að þreifa og finna og sumt af þessu bara steinliggur.“
Hún bendir á að stefnuskrár flokkanna séu keimlíkar þegar komi að skipulags-, húsnæðis- og samgöngumálum. „Við viljum nýungar í menntamálum kynntum þær í kosningabaráttunni og munum ræða það núna. Við erum líka með ákveðna sýn útfrá atvinnulífi og nýsköpun. Við viljum gjarnan fá meiri nýsköpun inn í menntamál og velferðarmálin og höldum að það sé fullt af tækifærum þar. Það verður alltaf okkar sjónarhorn líka.“
Þá hafi Viðreisn lagt áherslu á að fá fyrirtæki og atvinnu út í hverfin og gerir ráð fyrir að það verði tekið upp í viðræðunum.
Spurð hvort hún telji að viðræðurnar komi til með að taka langan tíma segir hún mikilvægt að taka málin skref fyrir skref og gerir ráð fyrir því að þær muni taka nokkra daga. Það verði alls ekki um neina afgreiðslu að ræða.
„Nú eigum við eftir að setjast niður og búa til framkvæmda- og tímaáætlun og við í Viðreisn erum með ákveðna sýn á það. Kannski eru Píratar með aðra sýn eða Framsókn. Við erum bara ekki komin þangað.“
Þórdís bendir á að það bæði meirihluti og minnihluti hafi tapaði í kosningunum og það þýði nýtt upphaf.
Fátt annað hafi komist að í kosningabaráttunni en húsnæðis- og samgöngumál og þá verði að skynja að atkvæðin hafi fallið þar sem þær skýru línur lágu.
„Þannig lesum við það í Viðreisn, þess vegna mátum við það sem svo að það væri gott fyrir okkur að vera í bandalagi með Pírötum og Samfylkingunni og höfum fulla trú að það væri best að taka skrefin úr þeirri átt.“
Spurð hvort hún telji að annað hvort Píratar eða Framsókn eigi tilkall til borgarstjórnarstólsins vegna kosningasigurs flokkanna segir hún eðlilegt að fara inn í viðræðurnar með opnum hug hvað það varðar. „Það er ekkert gefið í borgastjórastólnum. Við þurfum bara að taka þá umræðu.“