Ólöf Árnadóttir hefur verið ráðin framkvæmdastjóri hjúkrunar á Reykjalundi. Hún gengur til liðs við Reykjalund frá því að hafa verið deildarstjóri á hjúkrunardeildum Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi, Ljósheimum og Fossheimum. Þar áður var Ólöf hjúkrunarstjóri heilsugæslu Rangárþings. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjalundi.
Ólöf lauk námi í hjúkrunarfræði frá HÍ árið 2003 og meistaranámi í stjórnun í heilbrigðisþjónustu frá Háskólanum á Bifröst árið 2011. Þar lagði hún áherslu á straumlínustjórnun í íslenskri heilbrigðisþjónustu. Þá hefur Ólöf sinnt félagstörfum m.a. fyrir Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga, Krabbameinsfélag Rangárþings og Ungmennafélagið Heklu.