Vona að fólk í vændishugleiðingum lesi bókina

Eva Dís Þórðardóttir og Brynhildur Björnsdóttir standa að bókinni sem …
Eva Dís Þórðardóttir og Brynhildur Björnsdóttir standa að bókinni sem sést hér á milli þeirra.

Sex „venjulegar íslenskar konur“ segja frá neikvæðri upplifun sinni af því að selja vændi í nýrri bók. Þar er einnig rætt við kaupanda vændis en að sögn höfundar virðast kaupendur margir hverjir einnig upplifa vændi á neikvæðan hátt. Ný talnagögn frá Stígamótum, sem birt eru í bókinni, sýna fram á að vændi dragi almennt meiri dilk á eftir sér fyrir þolendur þess en fyrir þolendur annars kynferðisofbeldis.. Umrædd gögn ná yfir 10 ára tímabil.

„Þessi bók er skrifuð með djúpri virðingu fyrir fólki sem er í vændi. Rannsóknir sýna að 90% þeirra sem eru í vændi vilja ekki vera þar en 10% svara því til að þau séu ekki í vændi gegn eigin vilja. Það er enginn að ákveða hlutina fyrir þau 10% en við getum ekki látið upplifun þeirra stjórna hag meirihlutans,“ segir Brynhildur Björnsdóttir fjölmiðlakona, sem skrifaði bókina.

Kaupendur sem eru miður sín eftir reynsluna

Kaupendur virðast margir hverjir eiga neikvæða upplifun af vændi.

„Meirihluti kaupenda vændis kaupir ekki nema einu sinni til þrisvar. Það bendir til þess að þeir eigi líka neikvæðar upplifanir,“ segir Brynhildur. Hún nefnir að vændiskaupendur sem hafa haft af þeirri iðju neikvæða upplifun hafi sett sig í samband við Evu Dís og sagst vera miður sín eftir reynsluna. Þeir upplifi að hafa beitt ofbeldi, þótt það hafi ekki verið ætlun þeirra með vændiskaupunum.

Bókin kom út í dag en hún var skrifuð að frumkvæði og í samvinnu við Evu Dís Þórðardóttur, brotaþola vændis og baráttukonu. Þær óska þess sérstaklega að fólk sem hefur íhugað að kaupa eða selja vændi lesi bókina og kynni sér málavöxtu, svo það geti tekið upplýstar ákvarðanir í því samhengi.

Þolendurnir sex sem Brynhildur ræddi við, sem og kaupandinn, koma ekki fram undir nafni í bókinni af virðingu við nánustu aðstandendur þeirra.

„Vegna þess að það er erfitt fyrir aðstandendur að vita af því að ættingjar þeirra hafi leitað í þetta.“

Að undanförnu hefur oft verið talað um vændi sem kynlífsvinnu. Spurð um það segist Brynhildur ekki geta tekið skilgreiningarvaldið af öðrum en að fyrir henni sé ekki um kynlíf að ræða.

„Því fyrir mér er kynlíf nokkuð sem fer fram með fúsu samþykki beggja aðila, ekki keyptu.“

Þá segir hún sömuleiðis skjóta skökku við að tala um vinnu enda gildi vinnulöggjöf um atvinnu fólks og á almennum vinnumarkaði hafi það ákveðin réttindi sem séu verulega skert þegar um vændi er að ræða.

„Ég held að mér sé óhætt að fullyrða að ekkert starf geri þær kröfur til þess sem það vinnur að hann taki við því sem einhver annar vill gera við hann,“ segir Brynhildur. 

„Ég held að mér sé óhætt að fullyrða það að …
„Ég held að mér sé óhætt að fullyrða það að er engin vinna sem gerir þær kröfur til þess sem hana vinnur að hann taki við því sem einhver annar vill gera við hann,“ segir Brynhildur. AFP

„Þetta snýst ekki um langanir, áhuga eða losta

Þær konur sem hún ræddi við eru „venjulegar íslenskar konur“.

„Þær leituðu í vændi ýmist úr neyð eða vegna þess að þær töldu að þetta væri ekkert mál; að þær gætu gert þetta í smá tíma og unnið sér fyrir íbúð og svo framvegis. Það sýnir sig að það sem þær kaupa fyrir peningana verður þeim ekki til ánægju. Þær hafa losað sig við flest sem þær keyptu sér,“ segir Brynhildur og bætir við:

„Þetta snýst ekki um langanir, áhuga eða losta heldur snýst þetta um að fá greitt fyrir það sem við mörg hver skilgreinum sem eitthvað það innilegasta sem þú getur gert með annarri manneskju. Samþykkið er keypt af þér í vændi. Við skilgreinum kynferðisofbeldi sem kynferðislegt samneyti gegn vilja fólks og er þá hægt að kaupa þann vilja?“

Hér á landi er svokölluð sænsk leið í gildi hvað varðar löggjöf í kringum vændi. Það þýðir að löglegt er að selja vændi en ólöglegt að kaupa það.

Brynhildur bendir á að undanfarið hafi verið hávær umræða um að lögleiða eigi vændiskaup. Fólk sem tali fyrir því telji að með því gæti fólk í vændi unnið sig frá skömm og fengið meiri réttindi. Eftir rannsóknarvinnuna, sem Brynhildur hefur lagst í, telur hún þó að það myndi ekki bæta stöðuna að lögleiða vændiskaup. Í bókinni skoðar hún sérstaklega reynsluna sem hlotist hefur af því í þremur löndum: Þýskalandi, Hollandi og Nýja-Sjálandi.

„Staða fólks í vændi er sannarlega ekki góð í þessum löndum. Þessi afglæpavæðing svokallaða hefur ekki gagnast þessu fólki. Upphaflega var hún tekin upp til þess að bæta hag fólks í vændi en reynslan sýnir að hún gerði það ekki,“ segir Brynhildur.

Eftirspurnin eykst með frelsi til kaupa

Hún bendir á að það, að vændiskaupendum sé veitt meira frelsi, auki spurn eftir vændi og mansali.

„Raddir þeirra sem upplifa vændi á neikvæðan hátt og búa jafnvel við erfið áföll sem tengjast því að hafa verið í vændi, hafa ekki heyrst nógu mikið. Það var það sem við vildum gera í þessari bók: Benda á að það eru mjög margir sem hafa verið í vændi sem upplifa vændi á neikvæðan hátt.“

Aðspurð segir Brynhildur erfitt að segja til um það hversu útbreitt vændi sé á Íslandi.

„Í raun hefur lögreglan það mikið á sinni könnu að hún hefur ekki möguleika á að fylgja þessum málum eftir eins vel og hún vildi.“

Þakklát fólkinu sem sagði sögu sína

Hún segir sömuleiðis að velta megi því upp hvort þyngja megi refsingar fyrir vændiskaup.

„Refsiramminn er mjög þröngur, refsingar eru ekki miklar. Fyrsta brot er sekt og annað brot er mögulega eins árs fangelsisdómur.“

Brynhildur segist að lokum afar þakklát fyrir að hafa fengið það verkefni að skrifa bókina og að um sé að ræða gríðarlega viðkvæmt og erfitt viðfangsefni.

„Ég er svo þakklát þessum konum og karli sem treystu mér fyrir sögunum sínum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka