„Ástandið alvarlegt“ í íslensku leikhúslífi

Úr sýningu Verzlunarskóla Íslands sem sýnd var í íþróttahúsi skólans …
Úr sýningu Verzlunarskóla Íslands sem sýnd var í íþróttahúsi skólans sökum húsnæðisskorts. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrengt hefur verið að sjálfstæðum leikhópum undanfarin 15 ár þar sem húsnæði er af skornum skammti, styrkir renna nær einungis til frumverka og erfitt er að setja upp söngleiki. Stjórnvöld verða að skerast í leikinn og finna húsnæði fyrir sjálfstæða leikhópa. Þetta segir Orri Huginn Ágústsson, formaður Sjálfstæðu leikhúsanna, bandalags atvinnuleikhópa (SL).

„Þetta er eitthvað sem verður ekki leyst á einni nóttu en ástandið er alvarlegt,“ segir Orri um þróun leikhúsgeirans á Íslandi.

Hann segir þróunina undanfarin ár hafa verið á þann veg að sífellt fækki því húsnæði sem sjálfstæðu leikhúsin, þ.e. leikhús sem ekki eru styrkt af borg eða ríki hafi um að ráða. Nefndi hann þar Austurbæjarbíó, sem nú er pílustaður, Loftkastalann þar sem nú er hótel og Norðurpólinn.

Orri Huginn Ágústsson.
Orri Huginn Ágústsson. Ljósmynd/Elsa Katrín

Nú stendur til í bæði Hafnarfirði og Mosfellsbæ að rífa niður bæjarleikhúsin. Í Hafnarfirði á að rífa Gaflaraleikhúsið og stækka Víkingahótelið sem staðsett er við hlið þess. Í Mosfellsbæ stendur til að rífa bæjarleikhúsið og byggja þar blokkir.

„Ég held að ég geti talið yfir 20 rými sem hafa verið í notkun undanfarin 15 ár, kannski ekki öll á sama tíma, en þó hellingur af þeim. Þetta hefur gerst mjög hratt. Kaffileikhúsið í hlaðvarpanum og Skemmtihúsið við Laufásveg. Leikhúsbatteríið niðrí bæ. Þessi hús hafa öll horfið. Verið rifin eða eigendurnir nýtt þau i annan rekstur,“ segir Orri Huginn.

Lítið um sali til útleigu fyrir ákveðinn fjölda 

Orri segir að þróunin undanfarin ár hafi gert það að verkum að ákveðin stærð sýningarsala sé vanfundin, flestir salir séu annað hvort of stórir eða of litlir.

Gunnar Helgason og Felix Bergsson í leikritinu Bakaraofninn í Gaflaraleikhúsinu.
Gunnar Helgason og Felix Bergsson í leikritinu Bakaraofninn í Gaflaraleikhúsinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Á milli þess að vera annað hvort í Bæjarbíó í Hafnarfirði þar sem eru 150 sæti í það að vera í þúsund sætum í Háskólabíó, þá er ekkert þarna á milli. Staðan er bara orðin sú að þeir staðir sem voru með þennan sætafjölda milli 300-500 eru ekki til lengur. Annað vandamál er að þeir staðir sem eru til útleigu eiga erfitt með að taka inn eina leiksýningu, sem þarfnast sex vikna æfingatímabil í stað þess að halda kannski fjórar árshátíðir og sex fyrirlestra. Rekstraraðilarnir þurfa bara að greiða leigu af húsnæðinu og velja þann kost sem gefur betur í vasann fyrir þá, skiljanlega,“ segir Orri og líkir stöðunni við þá þegar skemmtistaðnum Nasa var lokað við Austurvöll. Þá hafi tónlistarfólk misst tónleikasal af ákveðinni stærðargráðu sem ekki hafi enn fundist. „Okkar vantar eitt minna rými og eitt stærra rými en Tjarnabíó er.“

Stjórnvöld verði að grípa inn í

Orri segir að hægt sé að bæta stöðuna og ríkið og borgin verði að koma að borðinu og finna lausn á málinu. „Ég veit að Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra menningarmála, hefur viðrað þá hugmynd að mögulega vanti annað leiklistarrými í borginni einhversstaðar. Vonandi getum við átt samtal um það við borgina og ráðuneytið. Núna er komin ný manneskja í brúna í Tjarnarbíói og hún hefur ákveðnar hugmyndir um hvernig hægt er að stækka starfsemina þar, bara miðað við þann húsakost sem Reykjavíkurborg á fyrir. Meðal annars húsið við hliðina, og eins portið fyrir aftan Tjarnarbíó þar sem óskað hefur verið eftir því að byggja annað hvort leikmyndageymslu sem er engin í Tjarnabíó, eða bara jafnvel annað svið.“

Sýningin Mæður var samstarfssýning við Borgarleikhúsið.
Sýningin Mæður var samstarfssýning við Borgarleikhúsið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stórt skref hefur verið tekið með stofnun Sviðslistamiðstöðvar sem enn sé á frumstigi. Lengi hafi verið barist fyrir slíkri miðstöð en fyrir eru til kvikmyndamiðstöð, myndlistamiðstöð, tónverkamiðstöð og hönnunarmiðstöð.

Þrátt fyrir að ríkisstyrktu leikhúsin taki inn sjálfstæð verkefni og Tjarnarbíó fylli allt sitt pláss segir Orri að ennþá sé mikil vöntun á húsnæði. „Í Tjarnarbíó eru valin inn verkefni í húsið að vori en valið eru úr verkefnum sem uppfylli ákveðin skilyrði. Ekki komast allir sem eru með fullfjármögnuð verkefni að í Tjarnabíói.“  

Húsnæðið í boði óhentugt

Þau húsnæði sem standa til boða henta illa sem leikhús eða eru of dýr samkvæmt Orra sem segir að það vanti húsnæði þar sem menntaskólar og sjálfstæðir leikhópar geti leigt og sýnt sýningar sínar á sviði sem hannað er sem leikhús. Á þeim stöðum þar sem þessir hópar sýni í dag sé oft verið að breyta vöruskemmum eða opnum rýmum í leiksvið. Þar vanti ljósa og tæknibúnað ásamt leikmynd og oft sé salurinn nýttur í annað á meðan æfingum stendur.

Bíóborginni eða Austurbæjarbíói var lokað 2016.
Bíóborginni eða Austurbæjarbíói var lokað 2016. mbl.is/Jim Smart

 „Við höfum Hörpu sem er flókin og dýr að fara inní, þó núna séu menn að taka persónulega áhættu og ráðast í það verkefni að sýna þar Ávaxtakörfuna. Ekkert svið í Hörpu er útbúið sem leikhús. Svo erum við með Gamla bíó, með rekstaraðila sem reka fjölnota hús, sem velja sér viðburði með styttra tilhlaup og gefa meira í kassann. Í Hörpu er auðvitað hægt að „rigga“ upp leikhúsi en þar er alltaf bara það, það er ekki varanleg lausn.“

Hann segir stöðuna nú svipa til þess sem var eftir hrun þar sem húsnæðiseigendur sitji á eignum. Í því húsnæði sem leikhópum stendur til boða að leigja á þó eftir að huga að brunavörnum og salernisaðstöðu ásamt auðvitað öllu sem fylgir því að setja upp leikrit eins og sætisaðstöðu eða tækjakosti.

Ein tegund leikhúss fær styrki

Orri segir að styrkir úr leiklistarsjóði renni nær einungis til frumverka, þ.e. nýskrifaðra íslenskra verka sem frumsýna á í fyrsta skiptið. Þetta geri sjálfstæðu leikhópunum erfitt fyrir og setji hömlur á sýningarval þeirra. Erfitt sé að setja upp erlend verk eða enduruppsetningar á íslenskum verkum og söngleiki.

„Stórsýningar hljóta ekki styrki úr svona sjóðum, til að sýna söngleiki. Þetta er gert til að styðja við annan markhóp. Svo það er ekki nema þú viljir taka tugmilljóna séns eða eigir óvart 60 milljónir sem þú þarft ekki að nota og vilt setja það í þetta og vonast til að fá það nokkurn tímann til baka. Ég veit ekki um neinn sem er í þeirri stöðu.“

Mikið er um tónleika í Gamla bíó en hér sést …
Mikið er um tónleika í Gamla bíó en hér sést Ensími á sviði. mbl.is/Styrmir Kári

Hér áður fyrr var alltaf settur upp sumarsöngleikur sem hefur legið niðri núna undanfarin ár þangað til núna í fyrra þegar að það var sett upp We Will Rock You í Háskólabíó sem var í raun eini salurinn sem þau gátu farið inn í. Sem þýddi fyrir þau aukin kostnaður í tækni og tæki sem þýddi að minna fjármagn var til fyrir leikmynd og slíkt en þau treystu meira á lýsingu. „Þess vegna er þetta í raun bagalegt, að sjálfstæða senan á í raun ekki séns að koma að svona stórri sýningu, sem er rosalega leiðinlegt. Það er nóg af fólki sem myndi vilja setja upp svona sýningu sem á bara ekki möguleikann á því þar sem það vantar húsnæði.“

Orri segir að erfitt sé fyrir sjálfstæðu leikhúsin að keppa við sýningar stóru leikhúsanna þar sem alla umgjörð vanti og fjármagn sé mikið minna. „En þessi söngleikur sem var ekki beinlínis samkeppnishæfur við stóru söngleikina sem til dæmis Borgarleikhúsið er að setja upp. Borgarleikhúsið er best útbúna sviðið á Íslandi en sjálfstæðu leikhúsin komast ekkert þar inn, Borgarleikhúsið sjálft þarf bara að nota sviðið. Þess vegna er þetta í raun bagalegt, að sjálfstæða senan á í raun ekki séns að koma að svona sýningu, sem er rosalega leiðinlegt. Það er nóg af fólki sem myndi vilja setja upp svona sýningu sem á bara ekki möguleikann á því þar sem það vantar húsnæði“

Úr sýningunni Hobbitinn í uppsetningu Leikfélags Mosfellssveitar.
Úr sýningunni Hobbitinn í uppsetningu Leikfélags Mosfellssveitar. mbl.is/Jim Smart
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka