Svali varar við auknum stuldi úr ferðatöskum: „Ekki setja verðmæti í töskurnar“

Svali vill brýna fyrir ferðalöngum að setja ekki verðmæti í …
Svali vill brýna fyrir ferðalöngum að setja ekki verðmæti í innritaðar ferðatöskur á ferðalögum og plasta þær en meira hefur verið um það að verðmæti hverfa úr töskum á flugvellinum upp á síðkastið. Samsett ljósmynd: Kristinn Ingvarsson/Colourbox

Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali, einn eigandi ferðaskrifstofunnar Tenerife ferða, vill vekja athygli á því að mikið hefur verið um stuld úr innrituðum ferðatöskum upp á síðkastið. Hann vill brýna fyrir fólki að setja ekki verðmæti í töskurnar á ferðalögum sínum og mælir með því að fólk plasti töskurnar á flugvellinum eða notist við ferðatöskupoka. Hann vakti athygli á þessu á instagramsíðu sinni og ræddi um vandamálið við K100.is. 

Meira vör við vandamálið eftir Covid

Svali staðfestir að sprenging hafi orðið á ferðalögum Íslendinga til Tenerife upp á síðkastið enda margir þyrstir í sólina eftir heimsfaraldur og því mikilvægt að brýna fyrir ferðalöngum að passa vel upp á töskurnar sínar.

„Þetta er algengt víða um heim. Við höfum bara orðið svo mikið vör við þetta, sérstaklega eftir Covid, að það sé farið inn í töskurnar. Við vitum ekkert af hverju það er allt í einu að dúkka svona mikið upp. En það er einhver ástæða fyrir því að það er búin að vera plastvél uppi á flugvelli í mörg, mörg ár,“ segir Svali en hann segir að verðmætum virðist oftast vera stolið á leið í vélina eða inni í vélinni þar sem ekki eru myndavélar.

Meira hefur verið um að verðmætum fólks sé stolið úr …
Meira hefur verið um að verðmætum fólks sé stolið úr ferðatöskum á flugvöllum, meðal annars á Tenerife, eftir Covid, að sögn Svala. Ljósmynd/Colourbox

Býður hættunni heim með opinni tösku

„Ég veit ekki af hverju það er ekki hægt að stjórna þessu betur eða hvað veldur þessu. En það er hins vegar þannig að ef þú ert með opna tösku þá ertu að bjóða hættunni heim um að einhver fari í hana. Ef hún er læst með hengilás á rennilásnum er ekkert mál fyrir þá að opna rennilásinn,“ segir Svali og bendir á að fólk fatti oft ekki að taskan hafi verið opnuð fyrr en það er komið heim eða uppi á hótel.

Svali segir að eina leiðin til að koma í veg fyrir að farið sé í töskurnar sé að plasta töskurnar eða kaupa sérstaka poka utan um þær sem gerir óprúttnum aðilum erfiðara fyrir að komast í töskurnar. 

„Þá þurfa þeir sem eru að vinna í þessu að hafa svolítið fyrir því að komast inn í þær. Þeir hafa ekki tíma til þess,“ sagði Svali. 

Ekki setja pening eða önnur verðmæti í töskurnar

„Þumalputtareglan sem er mjög nauðsynlegt að brýna fyrir fólki er að setja ekki pening í töskuna. Ekki setja eitthvað sem er auðvelt að grípa og eru verðmæti. Og ef þú ert að kaupa eitthvað í útlöndum og fara heim, bara til að tryggja það myndi ég alltaf, alltaf plasta töskurnar!

Ég er svo „naive“. Ég hélt alltaf að þessar plastvélar væru bara fyrir töskur sem væri að eyðileggjast. En sennilega er þetta meðal annars ástæðan. Bara því miður. Ég er að heyra af þessu nánast bara í hverri viku,“ segir Svali.

Aðspurður staðfestir Svali að það hafi verið mikil sprenging í ferðamannaiðnaðinum á Kanaríeyjum og að sumarið lofi ótrúlega góðu en starfsfólk Tenerife ferða vinnur nú hart að því að búa til fleiri ferðir til að þjónusta Íslendinga í leit að ævintýrum á Kanaríeyjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert