Eldur kom upp í kjallaraíbúð við Miklubraut í morgun og hafa fimm verið fluttir til skoðunar á spítala vegna hugsanlegrar reykeitrunar. Lárus Steindór Björnsson, varðstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir að vel hafi gengið að slökkva eldinn sem kom upp í einu herbergi íbúðarinnar.
Allt húsið var rýmt vegna eldsvoðans, sem slökkviliðið fékk tilkynningu um laust eftir klukkan níu. Fólkið sem flutt var á spítala var inni í íbúðinni þegar eldurinn kom upp.
Eldsupptök eru enn ókunn en starfi slökkviliðsins er lokið og hefur vettvangur verið afhentur lögreglu.
Fréttin hefur verið uppfærð