Ný flóðlýsing Kópavogsvallar í meirihlutasáttmálanum

Orri Hlöðversson er nýr formaður bæjarráðs Kópavogs.
Orri Hlöðversson er nýr formaður bæjarráðs Kópavogs. mbl.is/Óttar

Orri Hlöðversson, oddviti Framsóknar í Kópavogi og nýr formaður bæjarráðs, segir nýjan meirihluta Sjálfstæðisflokks og Framsóknar leggja áherslu á að auka þjónustustig og gegnsæi stjórnsýslunnar.

Þá er aukin áhersla á lögð málefni barna og er sérstaklega tekið fram að flóðlýsingin á Kópavogsvelli standist alþjóðlega staðla, sem hún gerir ekki í dag.

Hvað munum við sjá á komandi kjörtímabili?

„Við munum sjá áframhaldandi traustan og góðan rekstur bæjarfélagsins sem hefur það markmið að tryggja grunnstoðirnar og þjónusta almenning vel.“

Nýr meirihlutasáttmáli var undirritaður í Gerðarsafni í dag.
Nýr meirihlutasáttmáli var undirritaður í Gerðarsafni í dag. mbl.is/Óttar

Ekki að boða byltingar

„Við erum ekki að boða stórkostlegar byltingar. Við erum að taka við, að okkar mati, einu framsæknasta bæjarfélagi landsins og við viljum tryggja að svo verði áfram.

Við erum að sjá miklar áherslur í málefnum barna, alveg frá því að fæðingarorlofi lýkur og þangað til þau eru orðin níu til tíu ára gömul í íþróttum. Þá er ég að tala um leikskólamál, skólamál og íþróttafélögin,“ segir Orri.

„Þannig það er sitt lítið af hverju og svolítið stærra með.“

Þá segir Orri að Kópavogsbúar muni sjá meira gegnsæi á komandi kjörtímabili. Raddir hafi verið uppi um að slíkt hafi verið ábótavant, þar sér í lagi í skipulagsmálum.

„Við ætlum að auka þjónustustigið og bæta aðgengi íbúa að stjórnsýslunni.“

Ný flóðlýsing á Kópavogsvelli

Athygli vakti í september í fyrra að þegar meistaraflokkur kvenna hjá Breiðabliki tryggði sér sæti í Meistaradeild Evrópu, kom í ljós að Kópavogsvöllur, heimavöllur Breiðabliks, stæðist ekki kröfur UEFA um flóðlýsingu á leikjum. Liðið gæti því ekki spilað heimaleiki sína á heimavelli.

Morgunblaðið vakti athygli á málinu á sínum tíma.

Spurður hvort hann, sem formaður bæjarráðs, myndi beita sér fyrir að bærinn tryggði sér betri flóðlýsingu sagði Orri:

„Það munum við gera, það er ekki flókið. Það er meira að segja sérstaklega tekið fram í okkar ágæta meirihlutasáttmála. Við ætlum okkur að tryggja lýsingu á vellinum sem stenst alþjóðlega staðla.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert