Reyndi að fá manninn í vagninn án árangurs

mbl.is/Hari

Vagnstjórinn sem varð fyrir árás af höndum farþega á leið norður með leið 57 fyrir viku síðan glímir enn við svima og líður ekki vel. Hann er enn í veikindaleyfi og hefur kært árásina til lögreglunnar á Norðurlandi eystra, að sögn Guðmundar Heiðars Helgasonar, upplýsingafulltrúa Strætó. 

Hann ræddi málið við mbl.is en frásögn vagnstjórans af árásinni birtist í Fréttablaðinu í dag.

„Það eru þarna tveir menn sem eru að fara norður til Akureyrar með leið 57. Það er stoppað á Blönduósi á leiðinni í nokkrar mínútur,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.

Að pásunni lokinni ætlaðist maðurinn til þess að vagninn og farþegar hans myndu bíða lengur eftir honum á meðan hann fengi sér pylsu.

Beið í Varmahlíð eftir símtal frá lögreglu

Vagnstjórinn þurfti aftur á móti að halda sig við áætlun, svo hann rak á eftir manninum og reyndi að fá hann aftur upp í vagninn án árangurs. Honum voru því gefnir afarkostir: Annað hvort kæmi hann upp í vagninn eða hann færi án hans, sem hann og gerði.

„Svo kemur skömmu síðar símtal frá lögreglunni í stjórnstöð Strætó þar sem hún segir að hún sé með þennan mann sem varð eftir á Blönduósi í bílnum og þeir ætli að hitta strætóinn í Varmahlíð.

Vagnstjóranum lýst svo sem ekkert á það en fyrst lögreglan biður um það þá hlýðir hann því og bíður eftir þeim í korter í Varmahlíð.“

Þegar komið var til Akureyrar hafi mennirnir tveir síðan ráðist á vagnstjórann.

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.
Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó. Ljósmynd/Dóra Dúna

Hefur kært árásina

„Þetta er það sem gerist. Og hann er þarna illa slasaður, blæðir mikið, fær heilahristing og er búinn að vera frá vinnu í rúma viku.“

Maðurinn er vagnstjóri fyrir Hópbíla sem keyrir leiðina á verktakasamningi undir merkjum Strætó. Ekki er vitað hvenær hann kemur aftur til starfa.

„Hann lýsir því þannig að honum líði bara ekki vel. Honum svimi mikið og eflaust hefur þetta eitthvað sest á sálina líka.“

Þá hefur maðurinn kært árásina til lögreglunnar á Norðurlandi eystra og er það því til rannsóknar þar.

„Við reynum auðvitað að styðja manninn eins vel og við getum, bæði við hjá Strætó og verktökunum, í þessu bataferli og vonandi kemst hann aftur til starfa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert