Sigríður nýr forstöðumaður hjá Krabbameinsfélaginu

Sigríður Gunnarsdóttir verðandi forstöðumaður hjá Krabbameinsfélaginu.
Sigríður Gunnarsdóttir verðandi forstöðumaður hjá Krabbameinsfélaginu.

Sigríður Gunnarsdóttir hjúkrunarfræðingur hefur verið ráðin sem forstöðumaður rannsókna- og skráningarseturs Krabbameinsfélagsins. Hún tekur við starfinu 1. október næstkomandi. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

Sigríður er hjúkrunarfræðingur að mennt en hún lauk klínísku meistaranámi í krabbameinshjúkrun frá University og Wisconsin Madison árið 2000 og doktorsprófi í hjúkrunarfræði frá sama skóla árið 2004.

„Frá árinu 2012 hefur Sigríður starfað sem framkvæmdastjóri hjúkrunar á Landspítala þar sem hún hefur leitt faglega þróun hjúkrunar og byggt upp og eflt gæða- og umbótastarf, menntun, vísindi og starfsþróun. Samhliða starfi sínu hefur hún gegnt starfi prófessors í krabbameinshjúkrun við Háskóla Íslands frá árinu 2017. Sigríður hefur stýrt rannsóknarverkefnum sem hlotið hafa styrki úr rannsóknar- og samkeppnissjóðum bæði hér á landi og erlendis og birt fjölda vísindagreina í ritrýndum tímaritum,“ segir í tilkynningunni.

Var formaður stjórnar

Þar kemur jafnframt fram að Sigríður hafi verið virk í starfi Krabbameinsfélags Íslands en hún átti sæti í stjórn Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins frá stofnun árið 2015 og var formaður stjórnar frá 2016 til 2021.

„Við hjá Krabbameinsfélaginu eru mjög ánægð með að vera búin að fá Sigríði í hópinn. Hún verður mjög góður liðsauki við þann góða hóp sérfræðinga sem starfar hjá Rannsókna- og skráningarsetri félagsins. Á stefnuskrá Krabbameinsfélagsins er að auka enn frekar rannsóknir og hagnýtingu gagna, svo enn meiri árangur náist varðandi markmið félagsins, að fækka þeim sem fá krabbamein, að fjölga þeim sem lifa með og eftir krabbamein og að bæta líf þeirra og aðstandenda. Sigríður fær það hlutverk að þróa starf setursins áfram í takt við áherslur félagsins, byggt á þeim góða grunni sem þar er fyrir,“ er haft eftir Höllu Þorvaldsdóttur, framkvæmdastjóra Krabbameinsfélagsin í tilkynningunni.

Þar er eftirfarandi haft eftir Sigríði:

„Það er mikið tilhlökkunarefni að ganga til liðs við Krabbameinsfélagið. Ég þekki starf félagsins ágætlega og lít á það sem frábært tækifæri að fá að taka þátt í að þróa starf Rannsókna- og skráningarsetursins frekar skoða m.a. reynslu þeirra sem greinst hafa með krabbamein og langtíma áhrif á líðan þeirra og lífsgæði. Ég tek við mjög góðu búi af Laufeyju Tryggvadóttur, sem hefur leitt starfið hingað til og mun nú einbeita sér að áframhaldandi rannsóknum. Ég hlakka til samstarfsins við hana og annað starfsfólk setursins og félagsins. Stórar áskoranir blasa við í framtíðinni, vegna mjög aukins fjölda krabbameinstilvika og fjölgunar lifenda. Ég tel mjög mikilvægt að allir leggist á eitt við að skapa hér á landi fyrirmyndaraðstæður fyrir fólk með krabbamein auk þess að vinna gegn krabbameinum. Krabbameinsfélagið og rannsóknir þess gegna þar lykilhlutverki.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert