Þrjú voru ráðin til prestsstarfa

Þrír nýir prestar fengu ráðningu hjá þjóðkirkjunni.
Þrír nýir prestar fengu ráðningu hjá þjóðkirkjunni. Samsett mynd

Í þessum mánuði hefur verið gengið frá ráðningu þriggja presta í störf hjá þjóðkirkjunni og Landspítala.

Valnefnd kaus sr. Pétur Ragnhildarson til að vera prestur í Breiðholtsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Sr. Pétur fæddist 1993 og útskrifaðist með embættispróf í guðfræði árið 2019.

Hann á að baki langan feril í barna- og unglingastarfi. Sr. Pétur vígðist 1. mars 2020 sem prestur og æskulýðsfulltrúi við Fella- og Hólakirkju og Guðríðarkirkju.

Valnefnd kaus Bryndísi Böðvarsdóttur guðfræðing til að vera prestur í Austfjarðaprestakalli, Austurlandsprófastsdæmi.

Bryndís fæddist 1972 á Akureyri og ólst þar upp. Hún hóf fyrst djáknanám en skipti svo yfir í guðfræðinám og lauk BA-prófi árið 2011 og prófi frá guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ 2019.

Eftir að prófum lauk hefur hún starfað sem kirkjuvörður og meðhjálpari við Lágafellssókn. Bryndís á þrjú börn.

Landspítali auglýsti fyrir nokkru laust starf sjúkrahúsprests eða sjúkrahúsdjákna við spítalann.Hjördís Perla Rafnsdóttir guðfræðingur var ráðin til starfans.

Hjördís Perla fæddist 1986 og ólst upp í Kópavogi. Hún tók BA-próf í guðfræði frá Háskóla Íslands 2011 og BA-próf í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri 2017. Mag. theol.-prófi lauk hún frá Háskóla Íslands 2021.

Hjördís Perla bjó í útlöndum í átta ár, 2011-2019, ásamt eiginmanni sínum, Kára Árnasyni, en hann var atvinnumaður í fótbolta í Skotlandi, Englandi, Svíþjóð, Kýpur og á Tyrklandi. Þau eiga tvö börn.

Þá hefur biskup Íslands auglýst eftir presti til þjónustu í Seljaprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi eystra. Umsóknarfrestur er til 7. júní nk. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert