Leiguverð hefur ekki hækkað að raunvirði á síðastliðnum tveimur árum, frá aprílmánuði 2020 til aprílmánaðar 2022, sé litið til leiguverðs í þinglýstum leigusamningum. Þetta segir Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Verkalýðshreyfingin hefur talað öðru máli og segir stöðu leigjenda afleita. Á tímabilinu hækkaði leiguverð um 9%, almennt verðlag án húsnæðis um 10%, laun um 17% og verð íbúðarhúsnæðis um 39%, að sögn Önnu Hrefnu.
„Gögnin endurspegla leiguverð nýrra samninga í upphafi samningstímans. Margir leigusamningar eru þó vísitölubundnir og ekki öllum leigusamningum er þinglýst þannig að það mætti bæta úr gögnum um leigumarkað, eins og stendur reyndar til að gera,“ segir Anna.
Segir hún að þá væri hægt að fá fyllri upplýsingar um það hvers konar leigusamningar liggi þarna að baki og hvernig leiguverð þróast á samningstíanum. Þá hefur Alma íbúðafélag til að mynda ákveðið að frysta leiguverð á endurnýjuðum leigusamningum vegna verðbólgu.
„Þó að leiguverð hafi undanfarin tvö ár ekki hækkað í takt við kaupverð húsnæðis, laun eða verðlag er viðbúið að það breytist á næstunni. Ekki síst í ljósi þess að þörf er á talsverðu aðfluttu vinnuafli sem þarf einhvers staðar að búa. Svo eigum við einnig von á áframhaldandi straumi flóttafólks vegna stríðsins. Þessi þróun mun setja aukinn þrýsting á leigumarkað,“ segir hún.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag